Ljósið logar enn

Mikil vinna hefur farið fram innan Samtaka atvinnulífsins í tengslum við vandamál atvinnulífsins í kjölfar falls bankanna. Markmið þessa starfs hefur verið að finna lausnir á bráðavanda fyrirtækjanna og leita leiða til þess að íslenskt atvinnulíf komist aftur á rétta braut. Ljóst er að aðeins litrík lýsingarorð geta átt við um það ástand sem nú ríkir í atvinnulífinu og allir Íslendingar eiga mikið undir því að það nái góðri viðspyrnu til framtíðar. Eftirfarandi meginatriði endurspegla þá vinnu og umræðu sem fram hefur farið á vettvangi Samtakanna.

Tryggja verður aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annarra ríkja í því skyni að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf og ná að hækka gengi krónunnar. Tryggja verður viðunandi framboð af gjaldeyri og skapa einn hagkvæman gjaldeyrismarkað. Vaxtahækkun í tengslum við aðkomu sjóðsins var misráðin og brýnt er að lækka vextina sem allra fyrst.

Samskipti íslensks atvinnulífs og annarra sem skulda í erlendum gjaldmiðlum verða að komast í ásættanlegt horf. Eigendur íslensku bankanna verða að geta tryggt samfelldan aðgang að erlendu lánsfé og best er að fá erlenda kröfuhafa bankanna að eignarhaldinu. Það verður að semja frið við erlenda kröfuhafa bankanna og aðra erlenda lánadrottna íslenskra aðila. Ríkiseign á bönkunum við núverandi aðstæður er ófæra.

Uppstokkun atvinnulífsins þarf að taka mið af langtímahagsmunum. Bankarnir munu fá fjölda fyrirtækja í fangið og þurfa að afskrifa skuldir og leggja til nýtt eigið fé. Þessi ferill þarf að vera eins opinn og sanngjarn og kostur er og gæta þarf að samkeppnissjónarmiðum til að tryggja framþróun og verjast stöðnun. Hlutafé í eigu banka þarf að stýra af eignarhaldsfélögum sem eru opin að einhverju leyti utanaðkomandi aðilum. Það verður að tryggja aðskilnað innan banka á eigendahlutverki í fyrirtækjum og þjónustu- og lánveitandahlutverks þeirra.

Kjarasamningar þurfa að stuðla að langtíma stöðugleika. Eyða þarf óvissu vegna framlengingar kjarasamninga og koma þarf málum þannig fyrir að hægt sé að semja um heildarlausn á vinnumarkaðnum sem skapar jarðveg fyrir a.m.k. 4 ára langtímasamning á árinu 2010. Sá samningur verður að skapa grunn að lágri verðbólgu og stöðugleika út næsta áratug.

Íslendingar verða að búa við gjaldmiðil sem skapar grundvöll fyrir efnahagslegan stöðugleika. Krónan er ekki samkeppnisfær gjaldmiðill á mælikvarða verðbólgu, vaxta og gengis. Það þýðir ekki að vera í "Nýju fötin keisarans" leik áfram. Evran er mikið hagsmunamál fyrir atvinnulífið og sú staðreynd kallar á endurmat á afstöðu okkar til aðildar að Evrópusambandinu.

Ríkið og sveitarfélögin verða óhjákvæmilega rekin með halla á næsta ári en miklu skiptir að staðið sé að málum á ábyrgan hátt. Gæta verður fyllsta aðhalds í rekstri og huga að langtímasjónarmiðum. Lækkun útgjalda má ekki öll vera á kostnað framkvæmda, viðhalds eða verkefna utan stofnana ríkis og sveitarfélaga. Opinberir aðilar þurfa að koma að verkefnum til þess að auka atvinnu.

Skilyrði fyrir erlendar fjárfestingar á Íslandi verða að vera hagstæðog nota verður alla möguleika til nýrrar sóknar í atvinnumálum. Stefna Ísland í loftslagsmálum verður að vera einbeitt varðstaða um hagsmuni landsins og ákvarðanataka í umhverfismálum og orkunýtingu verður að vera markviss og skilvirk. Endurvinna verður álit á pólitískum stöðugleika á Íslandi.

Komandi misseri verða sjálfsagt erfiðustu tímar sem núverandi forystukynslóð í atvinnulífinu mun upplifa. Stjórnendur verða að vera trúir rekstrinum og setja hag hans og framtíð í öndvegi. Reyna verður að halda í starfsfólk eins og kostur er og fjárfesta í trygglyndi og samstöðu. Fyrirtæki þurfa að skapa samheldni innan sinna raða og ekki gleyma þeim sem þurfa að hætta. Allir þurfa að hagræða og spara en samt þarf að hafa í huga að eyðsla eins er atvinna annars og uppbygging og framþróun mega ekki stöðvast.

Flest höfum við gert einhver mistök, stór eða smá, á undanförnum árum og við þurfum að læra af þeim og taka réttar ákvarðanir fyrir framtíðina. Það logar enn á ljósinu sem getur skapað okkur bjarta framtíð. Enn er á okkar valdi að finna rétta eldsneytið til þess að halda ljósinu lifandi og leiða okkur áfram.

Vilhjálmur Egilsson

Tengt efni:

Erindi Vilhjálms á opnum fundi SA 13.11. 2008