LÍÚ: Stjórnkerfi fiskveiða byggi áfram á aflamarkskerfinu

"Aðalfundur LÍÚ haldinn í Reykjavík 27. og 28. október 2011, skorar á stjórnvöld að ganga nú þegar til samstarfs við útvegsmenn um framtíðarskipulag fiskveiðistjórnunar á Íslandi. Mikilvægt er að festa komist á varðandi starfsskilyrði sjávarútvegsins í stað þeirrar óvissu sem nú ríkir. Til að hámarka afrakstur þjóðarinnar af nýtingu fiskistofnanna verður að tryggja þá langtímahugsun sem hefur skilað íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð. Það verður best gert með því að byggja stjórn fiskveiða áfram á aflamarkskerfinu." Svo segir í tillögu sem samþykkt var samhljóða á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna 2011.

Alls voru sjö tillögur samþykkar á aðalfundinum - allar samhljóða. Þær má nálgast á vef LÍÚ ásamt ræðu Adolfs Guðmundssonar, sem var endurkjörinn formaður samtakanna á fundinum.

Í ávarpi sínu sagði hann m.a. að samþykkt frumvarpa stjórnvalda um breytingar á stjórn fiskveiða myndu leiða til 320 milljarða króna neikvæðra áhrifa á sjóðsstreymi sjávarútvegsfyrirtækja á 15 ára tímabili. Þannig færi sjóðsstreymi fyrirtækjanna úr því að vera jákvætt um 150 milljarða í það að verða neikvætt um 170 milljarða króna samkvæmt úttekt endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte.

Adolf sagði einnig í ræðu sinni að næðu áformin fram að ganga bæri samkvæmt lögum um ársreikninga og samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum að afskrifa og gjaldfæra allar keyptar aflaheimildir strax eða rúma 210 milljarða með tilheyrandi áhrifum á eigið fé fyrirtækjanna. "Þetta myndi leiða af sér fjöldagjaldþrot í greininni með tilheyrandi áhrifum á lánastofnanir."

Sjá nánar:

Ályktanir aðalfundar LÍÚ 2011

Umfjöllun um ræðu Adolfs Guðmundssonar á vef LÍÚ