LÍÚ og SF andvíg aðild að ESB

Stjórn LÍÚ hefur samþykkt að verði Samtökum atvinnulífsins beitt fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið þá muni stjórnin leggja það til við félagsmenn að LÍÚ segi sig úr Samtökum atvinnulífsins. Þetta kemur fram í bréfi á vef LÍÚ til félagsmanna LÍÚ og SF.  "Þetta kemur í sjálfu sér ekkert á óvart en vissulega yrði illt að sjá á eftir þeim úr samtökunum. Ef þeir fara út þá eru þeir alltaf velkomnir til baka," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is. Vilhjálmur segir samtökin úr sjávarútvegi mjög traust og mikilvæg í SA. Þau hafi lagt mikið af mörkum til SA. Það styrki augljóslega ekki samtökin ef útgerðarfélögin segi sig úr SA.

Ennfremur segir Vilhjálmur "En það sem málið snýst líka um er það að flest hinna aðildarsamtaka SA hafa aðra skoðun á þessu máli. Framkvæmdastjórnin taldi því skynsamlegast að kanna, meðal aðildarfélaga, afstöðuna til ESB-aðildar. Það lægi þá fyrir hver afstaðan væri. Það er svo stjórnarinnar að taka ákvörðun."

Vilhjálmur segir að alltaf hafi legið fyrir að aðild að sjávarútvegsstefnu ESB yrði skref afturábak fyrir íslenskan sjávarútveg. Spurningin sé bara hversu stórt það skref yrði. "En að sjálfsögðu mundi sjávarútvegurinn, líkt og aðrar greinar, hafa hag af því að taka upp evru, fá efnahagslegan stöðugleika og lægri vexti. Í aðildarviðræðum myndu menn reyna að ná einhverri málamiðlun hvað sjávarútveginn varðar en það verður aldrei hægt að halda því fram að ESB-aðild yrði skref fram á við fyrir sjávarútveginn," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

Sjá nánar:

Bréf til félagsmanna LÍÚ og SF