Lítil og meðalstór fyrirtæki greiddu 2/3 heildarlauna í atvinnulífinu 2012

Í tilefni Smáþings sem fram fer næstkomandi fimmtudag vann Hagstofa Íslands úttekt fyrir Samtök atvinnulífsins sem gefur góðar vísbendingar um umfang og mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi á árunum 2010-2012. Í henni kemur m.a. fram að lítil og meðalstór fyrirtæki (með færri en 250 starfsmenn) greiddu 2/3 heildarlauna í atvinnulífinu á árinu 2012 eða um 366 milljarða króna. Heildarlaunagreiðslur í atvinnulífinu námu 555 milljörðum 2012.

Hagtölur um fyrirtæki eftir stærð hafa ekki verið birtar á Íslandi til þessa en þær liggja almennt fyrir í nágrannaríkjum Íslands. Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að úr þessu verði bætt.

Nánar verður fjallað um úttekt Hagstofunnar á Smáþinginu en þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Lítil fyrirtæki (með færri en 50 starfsmenn) greiddu um 44% heildarlauna í í atvinnulífinu árið 2012 eða 244 milljarða króna.

  • Örfyrirtæki (með 1-9 starfsmenn) greiddu 21% heildarlauna í atvinnulífinu árið 2012 eða 116,5 milljarða króna.

  • Tæplega 25 þúsund launagreiðendur voru í atvinnulífinu árið 2012, nærri 23 þúsund voru örfyrirtæki.

  • Rúmlega sjö af hverjum tíu starfsmönnum í atvinnulífinu árið 2012 starfaði hjá litlu eða meðalstóru fyrirtæki - rúmlega 98 þúsund manns. Rúmlega 42 þúsund störfuðu hjá örfyrirtækjum.

  • 4000 fyrirtæki urðu til í íslensku atvinnulífi á árunum 2010-2012 - nánast öll voru örfyrirtæki.

  • Hlutdeild lítilla og meðalstórra fyrirtækja í verðmætasköpuninni er hærra á Íslandi en í ESB. Hlutdeildin var 66% á Íslandi árið 2012 en 58% í ESB.

  • Hlutfallslega fleiri vinna hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Ísland en í ESB.

Smáþingið fer fram á Hótel Reykjavík Nordica fimmtudaginn 10. október kl. 14-17. Þar sem verður stofnaður nýr vettvangur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi undir merkjum Litla Íslands. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök SA standa að þinginu. Birtar verða tölur um umfang og mikilvægi smáfyrirtækja á Íslandi, framtakssemi Íslendinga verður mæld með hjálp Capacent og reynt verður að meta hversu mörg störf lítil og meðalstór fyrirtæki geti skapað á næstu 3-5 árum.

Smáþing er öllum opið og er þátttaka er án endurgjalds en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á vef SA.

DAGSKRÁ ÞINGSINS

SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG

Fjöldi frumkvöðla og fyrirlesara stíga á stokk á Smáþingi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra tekur þátt í Smáþinginu og flytur lokaorð. Að loknu þingi munu aðildarsamtök SA kynna þjónustu sína ásamt fleiri aðilum. Íslandsstofa og Festa verða á staðnum og fyrirtæki geta kynnt sér hvernig hægt er að fá fræðslustjóra að láni.

Tilgangur Litla Íslands er að bæta rekstrarumhverfi lítilla fyrirtækja á Íslandi og að byggja upp kröftugra, betra og skemmtilegra samfélag. Íslenskt atvinnulíf er byggt upp af litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þau eru lykilþáttur í verðmætasköpun þjóðarinnar, veita tugum þúsunda vinnu og eru mikilvæg uppspretta nýrra starfa og hugmynda.