Lítil og meðalstór fyrirtæki áforma fjölgun um 17.500 störf næstu 3-5 ár

Samtök atvinnulífsins gerðu könnun á ráðningaráformum lítilla og meðalstórra félagsmanna sinna í september 2013. Niðurstöðurnar byggja á svörum tæplega 400 fyrirtækja. Spurt var um hvort horfur væru á fjölgun eða fækkun starfsmanna í fyrirtækjununum næstu 3-5 ár. Lítil og meðalstór fyrirtæki sjá almennt fram á fjölgun starfsmanna.

Algengast er að þau geri ráð fyrir fjölgun um 2-4 starfsmenn (46%), næst algengast um 5-9 starfsmenn (20%) og þar á eftir 10-14 (16%) starfsmenn.

Full atvinna innan fárra ára?
Í heild áforma litlu og meðalstóru fyrirtækin, sem þátt tóku í könnuninni, fjölgun starfa um 1.500, eða sem nemur 15% á næstu þremur til fimm árum. Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi, sem hafa 2-249 starfsmenn, eru samtals rúmlega 9 þúsund og hafa 83 þúsund starfsmenn í vinnu. Sé niðurstaða könnunarinnar um áformaða 15% fjölgun starfsmanna næstu þrjú til fimm árin yfirfærð yfir á öll lítil og meðalstór fyrirtæki fæst að fjölgun starfsmanna þeirra gæti orðið 17.500 á þessu tímabili. Svo mikil fjölgun er langt umfram náttúrulega fjölgun á vinnumarkaði, sem er um 1.500-2.000 árlega, þannig að ef þessi áform ganga eftir mun full atvinna nást innan fárra ára.

Áformuð fjölgun mest hjá örfyrirtækjum

Einfaldastasta skilgreiningin á litlum og meðalstórum fyrirtækjum byggir á starfsmannafjölda þeirra. Samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins er fyrirtækum skipt í fernt eftir starfsmannafjölda, þ.e. í örfyrirtæki (1-9 starfsmenn), lítil fyrirtæki (10-49) meðalstór (50-249) og stór fyrirtæki (250 eða fleiri).

Örfyrirtæki (með 2-9 starfsmenn) höfðu 27 þúsund starfsmenn í vinnu Íslandi árið 2012. Samkvæmt könnuninni sjá þau fram á þriðjungs fjölgun fjölgun starfsmannna á næstu þremur til fimm árum. Sé sú niðurstaða yfirfærð á atvinnulífið í heild mun starfsmönnum þessara fyrirtækja fjölga um tæplega 9 þúsund.

Lítil fyrirtæki (10-49 starfsmenn), hafa 30 þúsund starfsmenn í vinnu. Samkvæmt könnuninni sjá þau fram á 18% fjölgun starfsmanna á næstu þremur til fimm árum Sé sú niðurstaða yfirfærð á atvinnulífið í heild mun starfsmönnum þessara fyrirtækja fjölga um rúmlega fimm þúsund.

Meðalstór fyrirtæki (50-249 starfsmenn) hafa 26 þúsund starfsmenn í vinnu. Samkvæmt könnuninni sjá þau fram á 12% fjölgun starfsmanna á næstu þremur til fimm árum Sé sú niðurstaða yfirfærð á atvinnulífið í heild mun starfsmönnum þeirra fjölga um rúmlega þrjú þúsund.

Árið 2012 störfuðu tæplega 36 þúsund starfsmenn hjá stórum fyrirtækjum. Hlutdeild þeirra hvað starfsmannafjölda í atvinnulífinu varðar var rúmlega 25% og hlutdeild lítilla og meðalstórra fyrirtækja í atvinnulífinu því tæplega 75%.

Einyrkjum var sleppt í úrvinnslu þar sem niðurstöður fyrir þann hóp eru ekki marktækar.

Lítil og meðalstór fyrirtækin í könnuninni og í atvinnulífinu í heild

195 örfyrirtæki (2-9 starfsmenn) tóku þátt í könnuninni sem er um helmingur svaranna og 9% starfsmannafjöldans. Á landinu öllu eru örfyrirtækin tæplega 7.700 og starfsmannafjöldi þeirra 27 þúsund. 135 lítil fyrirtæki tóku þátt sem er um þriðjugur svara og standa þau að baki þriðjungi starfsmannafjöldans. Á landinu öllu er fjöldi þeirra 1.570 og starfsmannafjöldinn um 30 þúsund. Meðalstór fyrirtæki í könnuninni voru 51 og standa þau að baki 58% starfsmannafjöldans. Á landinu öllu hafa meðalstóru fyrirtækin 26 þúsund manns í vinnu.

Um könnunina

Könnunin var gerð á tímabilinu 18.-29. september 2013 og voru spurningar 5. Í úrtaki voru 1.691 lítið og meðalstórt fyrirtæki (með færri en 250 starfsmenn) innan Samtaka atvinnulífsins og svöruðu 378. Fyrirtæki eru flokkuð í þrjá flokka eftir stærð; örfyrirtæki, lítil fyrirtæki og meðalstór fyrirtæki. Flokkunin fer eftir starfsmannafjölda og eru örfyrirtæki með færri en 10 starfsmenn, lítil fyrirtæki með 10-49 starfsmenn og meðalstór fyrirtæki með 50-249 starfsmenn. Öll fyrirtæki með færri en 250 starfsmenn flokkast þannig sem lítil og meðalstór fyrirtæki.

Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á Smáþingi sem fram fór í gær. Þar var stofnaður nýr vettvangur fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki undir nafni Litla Íslands.

Umfjöllun um þingið má nálgast á Facebook síðu Litla Íslands.

Hér er myndbrot um mikilvægi lítilla fyrirtækja og tækifærin sem eru til staðar: