Lítil lækkun stýrivaxta betri en engin

"Þetta er í áttina en betur má ef duga skal," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um lækun stýrivaxta Seðlabankans í 11%. Vilhjálmur segir að ef áætlanir ríkisstjórnarinnar um fjárfestingar og endurreisn atvinnulífsins eigi að ganga eftir þurfi að lækka vextina meira.

Rætt var við Vilhjálm í hádegisfréttum RÚV og á mbl.is. Hann segir litla lækkun stýrivaxta vera betri en enga lækkun en Vilhjálmur vonar að Seðlabankinn verði djarfari í næstu vaxtaákvörðun sem hefur verið ákveðin 10. desember nk. Vilhjálmur segir ljóst að fjármagnskostnaður verði að lækka á Íslandi til þess að fjárfestingar fari í gang í atvinnulífinu í þeim mæli sem miðað er við í áætlunum stjórnvalda.

Í frétt mbl.is segir ennfremur:  "Fyrirtæki sem hafa ekki aðgang að erlendu fjármagni eru ekki að fjárfesta þannig að fjármagnskostnaður verður að lækka. Ef vextirnir lækka ekki og fjárfestingar fara ekki í gang hjá venjulegum fyrirtækjum þá nást ekki markmið sem fjárlagafrumvarpið byggir á og atvinnuleysi eykst samfara."

Sjá nánar:

Tilkynning Seðlabankans um lækkun vaxta

Frétt mbl.is 5.11

Hlusta á rétt RÚV 5. 11.