Lífleg umræða um atvinnumálin á opnum fundum SA

Samtök atvinnulífsins efndu til opinna funda um stöðu atvinnulífsins og horfur í efnahagsmálum á Akureyri, Húsavík og Reyðarfirði á fimmtudaginn og föstudaginn í síðustu viku. Um 130 manns sóttu fundina en lífleg öflug umræða fór fram meðal fundargesta um þau tækifæri sem við blasa í atvinnulífinu og verður að nýta til þess að þjóðin komist út úr kreppunni. Til dæmis uppbyggingu fjölbreyttra iðnfyrirtækja og hvers kyns þjónustu, auk mikilvægis þess að skapa skilyrði til aukinna fjárfestinga í sjávarútvegi sem skipta landsbyggðina miklu máli.

Uppfærum menntakerfið og treystum innviði
Einnig var talsvert rætt um skort á tæknimenntuðu starfsfólki og nauðsynlegar breytingar á skólakerfinu til að auka samkeppnishæfni þjóðarinnar. Þá var rætt um krónu, evru og mögulega einhliða upptöku ýmissa gjaldmiðla og sýndist sitt hverjum. Ríkur vilji kom fram um að efla vetrartengda ferðaþjónustu á landsbyggðinni en forsenda þess er m.a. að samgöngur verði styrktar og byggðarlög tengd betur saman, t.d. með nýjum Vaðlaheiðargöngum og fækkun einbreiðra brúa sem eru stórhættulegar.

Þetta þarf ekki að vera svona
Formaður SA, Vilmundur Jósefsson, opnaði fundi SA og sagði m.a. að Samtök atvinnulífsins sætti sig hvorki við ástand efnahagsmálanna né horfurnar framundan. Spár bendi til þess að hagvöxtur verði lítill, framkvæmdir í lágmarki, atvinnu­leysi mikið og að hægt muni ganga að bæta lífskjörin. "Þetta þarf ekki að vera svona" sagði Vilmundur og vísaði til fjölda tillagna sem SA hafa lagt fram á undanförnum mánuðum og misserum sem miða að því að ná fram nauðsynlegum efnahagsbata og bæta lífskjörin.

Vilmundur sagði nýja gjaldtöku og síhækkandi skatta einungis hafa orðið til þess að draga úr þrótti atvinnulífsins, fresta fjárfestingum og koma í veg fyrir framkvæmdir. Þá ræddi hann um atvinnuleysið og þann mikla kostnað sem því fylgir en atvinnulífið greiðir kostnaðinn við atvinnuleysið með tryggingargjaldi sem er reiknað á allar launagreiðslur. SA sömdu um það síðastliðið vor ásamt ASÍ við ríkisvaldið að aðilar vinnumarkaðarins myndu taka við umsjón með atvinnuleysisskráningunni sem tilraunaverkefni. "Ástæðan er sú meðal annars að við teljum vera mikla brotalöm á því að kerfið vinni að því að koma sem flestum sem verða atvinnulausir til starfa að nýju."

Vilmundur sagði það algörlega ljóst að fólk án vinnu væri ekki ofhaldið á atvinnuleysisbótum en hann gagnrýndi að þeir sem borga reikninginn fyrir atvinnuleysið hafi ekki meira um það að segja hvernig fjármunum er ráðstafað og hvernig kerfið er rekið. Ríkisstjórnin hafi t.d. nýlega tekið ákvörðun fyrir hönd fyrirtækjanna í landinu um að greiða atvinnulausum desemberuppbót á bæturnar. Reikningurinn, 715 milljónir króna, verði sendur til fyrirtækjanna sem dragi úr fjárfestingum sem því nemur.

Rjúfum kyrrstöðuna - horfur meðal stærstu fyrirtækja landsins
Vilhjálmur Egilsson, kynnti niðurstöður nýrrar könnunar Capacent meðal stærstu fyrirtækja landsins ásamt því að ræða um hugmyndir SA sem settar eru fram í ritinu Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. Glærukynningu Vilhjálms má nálgast hér að neðan ásamt riti SA.

Sjá nánar:

Glærur Vilhjálms Egilssonar (PDF)

Rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)