Lífeyrissjóðir á Íslandi eru margir og ólíkir - áhætta í fjárfestingum nauðsynleg til að ná viðunandi ávöxtun

 Málefni íslenskra lífeyrissjóða hafa verið nokkuð til umræðu að undanförnu, m.a. aðkoma atvinnurekenda að rekstri sjóðanna, en það fyrirkomulag er ekki algilt. Í vikunni var rætt við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, um lífeyrismálin á Bylgjunni en þar var þeirri hugmynd m.a. varpað fram að leggja niður alla starfandi lífeyrissjóði og stofna einn sjóð fyrir landsmenn. Vilhjálmur segir þá hugmynd ekki góða í ljósi reynslunnar en með fjölbreyttu lífeyriskerfi sé hægt að bera saman árangur ólíkra sjóða. Hann segir nauðsynlegt að taka ákveðna áhættu í fjárfestingum sjóðanna til að tryggja fólki verðtryggðan lífeyri en ávöxtun hafi farið lækkandi að undanförnu með aukinni sókn í tryggari ávöxtunarleiðir.

Lífeyrismál og málefni lífeyrissjóðanna voru rædd Í Bítinu á Bylgjunni. Vilhjálmur nefndi að í dag séu starfandi 20-25 öflugir lífeyrissjóðir á Íslandi. Þeim hefur fækkað verulega á undanförnum árum með sameiningum og tilheyrandi hagræðingu en Vilhjálmur segir að mögulega séu þeir enn of margir.

Vilhjálmur segir mikla fjölbreytni meðal lífeyrissjóðanna þrátt fyrir að oft sé vísað til lífeyriskerfisins sem einnar heildar. Gagnrýni á sjóðina beinist oftar en ekki að atvinnurekendum og verkalýðshreyfingunni sem komi að rekstri þeirra lífeyrissjóða sem sé samið um í kjarasamningum (t.d. Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi). Sú gagnrýni sé ekki alltaf sanngjörn þar sem fleiri komi að rekstri lífeyrissjóða á Íslandi. Þar megi t.d. nefna lífeyrissjóði ríkisins, svokallaða frjálsa sjóði (Almenna lífeyrissjóðinn og Frjálsa lífeyrissjóðinn) og svokallaða sjóðfélagasjóði svo sem lífeyrissjóði verkfræðinga, bænda, lækna og flugmanna þar sem sjóðfélagarnir kjósa stjórnir sjóðanna.

"Með því að hafa alla þessa fjölbreytni þá höfum við mælikvarða á það hvort sjóðunum er að ganga vel eða illa. Ef við værum með einn sjóð þá myndi hann bara fara snúast um sjálfan sig og í rauninni yrði ekki hægt að stjórna slíkum sjóði nema af stjórnmálamönnum og ríkinu."

Vilhjálmur segir ákveðna reynslu til staðar af því hvernig til hefur tekist í lífeyrismálum ríkisins,  t.d. megi taka B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem dæmi. Þar sé tryggingafræðilegur halli upp á 400-500 milljarða, sem sé í rauninni skuld ríkisins en komi hvergi fram þegar talað er um skuldastöðu þess.  A deildin sé líka í mínus.

Vilhjálmur segir þetta kerfi ekki góða fyrirmynd og bendir á skipan mála erlendis til samanburðar. Alls staðar þar sem byggð hafi verið upp stök lífeyriskerfi fyrir alla hafi þau verið ósjálfbær. Sjóðsmyndun standi ekki undir greiðslu lífeyrisins þegar á þurfi að halda.

Varðandi gagnrýni á fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða segir Vilhjálmur að hlutverk þeirra sé að tryggja fólki verðtryggðan lífeyri. Mjög mikla ávöxtun þurfi til þess að inngreiðslur fólks í lífeyrissjóði haldi verðgildi sínu og gott betur. Sjóðirnir miði við að ná 3,5% raunávöxtun, þ.e. 3,5% ávöxtun umfram verðbólgu, svo lífeyrisþegar geti notið lífeyrisgreiðslna nokkrum árum lengur en ef ávöxtunarinnar hefði ekki notið við.

Vilhjálmur segir ljóst að ef lífeyrissjóðirnir ættu að ávaxta fjármuni sína aðeins með svokölluðum áhættulausum fjárfestingum, t.d. innlánum eða ríkisskuldabréfum, þá væri ekki hægt að ná þessari ávöxtun og lífeyrir fólks myndi skerðast. Hann segir ávöxtunina nú fara lækkandi, þar sem ríkisskuldabréf eða innlán séu nánast það eina sem hægt er að leggja pening í um þessar mundir. Ávöxtunin nálgist því 3,5% markið og sé jafnvel á leið undir það. Því sé nauðsynlegt að taka ákveðna áhættu til að ná ávöxtuninni upp á nýjan leik og jafnframt að fjárfesta erlendis.

Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna segir Vilhjálmur að eigi að vera öllum ljós og aðgengileg enda sé lífeyrissjóðunum skylt að veita greinargóðar upplýsingar um hversu vel þeim takist að ávaxta fé sjóðsfélaga. Fjárfestingarstefnan sé jafnframt reglulega tekin til umfjöllunar vettvangi sjóðanna.

Hlusta má á viðtalið í heild á vef Bylgjunnar:

Smellið hér til að hlusta á viðtalið við Vilhjálm - fimmtudaginn 2. september