Leiðari fréttabréfs SA: Rjúfum kyrrstöðuna

 "Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér skýrsluna, Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara. Þar er fjallað um meginþætti í stjórn efnahagsmála og hvernig þeir tengjast og skapa atvinnulífinu starfsgrundvöll. Heiti skýrslunnar lýsir þeirri brýnu þörf sem blasir við í íslensku samfélagi; að segja skilið við kreppuna, skapa störf, eyða atvinnuleysi og bæta lífskjörin.

Á þremur árum frá hausti 2008 hefur störfum fækkað um 12 þúsund og atvinnulausum fjölgað um 6 þúsund. Á þessu ári virðist botninum vera náð en ekki er enn hægt að tala um bata þar sem störfum fjölgaði aðeins um 0,1% á fyrstu níu mánuðum ársins frá sama tímabili í fyrra.

Ísland hefur farið halloka í samkeppni um fólk. Á síðasta áratug fluttu 7.500 fleiri Íslendingar frá landinu en til þess, því 35.500 fluttu burt en 28.000 komu til baka. Þessi brottflutningur samsvarar því að rúmlega tveir árgangar Íslendinga hafi horfið á braut. Á síðustu 50 árum missti Ísland stöðugt vel menntað og þjálfað starfsfólk á besta vinnualdri sem óhjákvæmilega veikir undirstöður samfélagsins. Þrátt fyrir góð lífskjör streymir fólk til annarra landa, einkum Norðurlandanna.

Í skýrslu SA er áhersla lögð á að efnahagslegur stöðugleiki sé undirstaða varanlegs árangurs í atvinnulífi. Mælt er með því að tekin verði upp fjármálaregla sem miði að lækkun heildarskulda ríkissjóðs úr 84% af landsframleiðslu í 35% á 10 árum og nettóskulda úr 43% í 15%. Gengið verði út frá markmiði um afgang af rekstri hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) við tiltekinn hagvöxt. Sé hagvöxtur minni en 2% myndist halli í opinberum rekstri en jafnvægi ríki við 2% hagvöxt.  Verði hagvöxtur 3% myndist afgangur í rekstrinum sem nemi 1,5% af landsframleiðslu og vaxi eftir því sem hagvöxtur eykst. Þetta krefst aga, staðfestu, úthalds, metnaðar og ekki síst framtíðarsýnar fyrir íslenskt samfélag.

Beiting stýrivaxta Seðlabankans á undanförnum áratug hefur ekki skilað stöðugleika eins og að hefur verið stefnt. Nú er mikið fjallað um beitingu frekari aðgerða í peningamálum. Þær felast einkum í því að gera strangari kröfur til fjármálafyrirtækja en áður. Þetta mun leiða til aukins kostnaðar fyrir viðskiptavini bankanna, fólk og fyrirtæki, og þar með draga úr samkeppnishæfni þeirra og fjárfestingum.

Íslenskt atvinnulíf verður að fá lánsfé og þjónustu á samkeppnishæfum kjörum til að standast erlendum keppinautum snúning. Uppbygging íslenska fjármálakerfisins á næstu árum snýst um skilvirkni og hagkvæmni. Bankar starfa á samkeppnismarkaði. Þótt íslenski fjármálamarkaðurinn sé nú lokaður verður að gera ráð fyrir því að opið verði fyrir erlendri samkeppni. Núverandi skattbyrði og fyrirhugaðar álögur skaða ekki einungis samkeppnisstöðu fjármálafyrirtækjanna heldur einnig íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni.

Kostir Íslands í gjaldmiðilsmálum eru í aðalatriðum þrír; að halda krónunni, að taka upp evru í kjölfar aðildar að ESB og einhliða upptaka annars gjaldmiðils. Þótt Ísland gerist aðili að ESB verður krónan gjaldmiðill Íslendinga út þennan áratug, þ.e. ef ekki verður tekinn upp annar gjaldmiðill einhliða. Góð hagstjórn treystir krónuna til skemmri og lengri tíma og þar þarf að koma til markviss fjármálaregla fyrir hið opinbera, agi í fjármálastjórn, raunsæ stjórn peningamála og sterkt alþjóðlega tengt fjármálakerfi.

Í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar segir beinlínis að krónan verði í viðjum hafta framvegis, þrátt fyrir að samþykkt hafi verið áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Í skýrslu SA er því haldið fram að viðvarandi gjaldeyrishöft valdi þrýstingi til lækkunar krónunnar en ekki öfugt, m.a. vegna þess að gjaldeyri er ekki skipt í krónur nema til þess að greiða fyrir kostnað eða greiða af lánum. Gjaldeyrishöftin eru hemill á hagvöxt og framfarir og afnám þeirra er þjóðarnauðsyn.

Þessi fyrsta efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar eftir að samstarfinu við AGS lauk veldur vonbrigðum og skortir trúverðugleika. Þar hefði þurft að koma fram einbeittur vilji til þess að koma á aga í opinberum fjármálum, metnaður til að rífa Ísland upp úr kreppuástandinu og sýn um hvernig fjárfestingar geta aukist, störfum fjölgað og atvinnuleysi minnkað. Áætlunina þyrfti að endurskoða fljótlega þannig að hún geti gegnt hlutverki sínu, að hafa skýra framtíðarsýn og marka leiðina fram veginn.

Fjárfestingar eru minni hlutfallslega en nokkru sinni í 70 ár. Fjárfestingar fyrirtækja eru litlar vegna óvissu og óhagstæðs fjárfestingaumhverfis, m.a. vegna skattahækkana. Stór fjárfestingarverkefni í orkuiðnaði og stóriðju hafa ekki orðið að veruleika. Óvissa um framtíðarskipulag í sjávarútvegi stendur í vegi fjárfestinga þar og miklu víðar. Hömlur á erlenda fjárfestingu eru meiri hér en í nokkru öðru ríki sem OECD birtir upplýsingar um. Úr þessu verður að bæta og það geta stjórnvalda gert ef vilji er fyrir hendi og hugmyndafræði þvælist ekki fyrir.

Í skýrslu SA kemur m.a. fram að gjöld hins opinbera séu hærri en í nokkru öðru ríki, þegar gjöld án ellilífeyrisgreiðslna eru dregin frá. Þessi samanburður er raunhæfur vegna þess að Íslendingar eru ung þjóð og hlutfallslega fáir eru aldraðir. Ísland er einnig í hópi þeirra ríkja þar sem heildarskatttekjur hins opinbera eru hæstar, að frádregnum sköttum sem ætlað er að standa undir lífeyrisgreiðslum almannatrygginga. Töluvert svigrúm til lækkunar gjalda ætti að vera fyrir hendi en svigrúm til skattahækkana er upp urið.

Nú er áformað að skattleggja tilteknar atvinnugreinar sérstaklega, þ.e. fjármálafyrirtæki, sjávarútveg og stóriðju. Þetta er óráðlegt, afleiðingarnar verða skaðlegar og munu seinka nauðsynlegum efnahagsbata. Kyrrstaðan í efnahagslífinu verður ekki rofin nema stjórnvöld tryggi fyrirtækjum rekstrarumhverfi þannig að þau hafi svigrúm til fjárfestinga. Gangi áformin eftir leggja stjórnvöld enn sitt af mörkum til að viðhalda atvinnuleysinu, fæla frá fjárfesta og seinka nauðsynlegum bata lífskjara almennings."

Hannes G. Sigurðsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í nóvember 2011

Tengt efni:

Nýtt rit SA: Rjúfum kyrrstöðuna. Leiðir til betri lífskjara (PDF)