Launamunur kynjanna 3-7% í Danmörku

LO, danska alþýðusambandið, og DA, dönsku samtök atvinnulífsins, birtu nýverið könnun sem þau gerðu í sameiningu á launamun kynjanna þar í landi. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar nemur sá munur á launum kynjanna sem ekki næst að útskýra með öðrum þáttum en kyni nú frá 3,4 til 7,4%. Heildarmunurinn á launum fastráðinna karla og kvenna er 19% að meðaltali, áður en tekið er tillit til atvinnugreinar, menntunar, vinnutíma, starfsreynslu, búsetu og fleiri þátta sem talið er að áhrif geti haft á framleiðni starfsfólks. Menntun fólks, starfsreynsla, starfsgreinarnar sem og atvinnugreinin sem fólk vinnur innan, skýra stærstan hluta launamunarins eða 10,2% af þeim 19% heildarlaunamun sem mælist milli karla og kvenna að meðaltali. Athygli vekur að stærð fjölskyldu eða fjöldi barna í fjölskyldu hefur ekkert skýringargildi á launamuninum.

Ekki horft á kyn sem skýringarbreytu
Rannsóknin byggðist á svokallaðri Oaxaca-aðferð (Journal of Econometrics-Oaxaca og Ransom 1994, Oaxaca 1973), þar sem líkön af lógaritma launa karla og kvenna eru byggð í sitthvoru lagi og munurinn síðan skýrður af þáttum sem teljast geta haft áhrif, svo sem áður segir. Sú aðferð horfir ekki á kyn sem skýringarbreytu heldur gerir heildstæðar aðskildar rannsóknir á launum kynjanna og ber þau síðan saman. Þessari aðferð hefur verið beitt í vaxandi mæli við rannsóknir á launamun undanfarin ár, og hefur henni einu sinni verið beitt hérlendis svo vitað sé. Það var í könnun Jafnréttisráðs og Nefndar um efnahagsleg völd kvenna sem kynnt var í september 2002. Samkvæmt henni má skýra tvo þriðju til þrjá fjórðu hluta launamunar kynjanna með starfi, menntun o.fl. Eftir stendur 7,5-11% launamunur, sem stafar af því að hjónaband o.fl hefur önnur áhrif á laun kvenna en karla. Hérlendis vantar reyndar upplýsingar um samanlagða starfsreynslu á vinnumarkaði og gögn um menntun eru mjög ófullkomin. Dönsku skýrsluna má nálgast á vef DA.