Launakostnaður 30% hærri á Íslandi en á evrusvæðinu

Launakostnaður á Íslandi er hærri en í öllum evruríkjunum þegar horft er til almenna vinnumarkaðarins. Munurinn mælist 30% á 2. ársfjórðungi 2007 en árið 2004 var munurinn 13%. Launakostnaður á Íslandi hefur hækkað um 26,1% í evrum reiknað á þessu tímabili samanborið við 9,9% hækkun í evruríkjunum. Launakostnaður hefur því hækkað tæplega 15% meira á Íslandi en í evruríkjunum. Mestu munar í byggingarstarfsemi þar sem launakostnaður er 66% hærri á Íslandi en þar á eftir koma samgöngur með 29% hærri kostnað. Þetta kemur fram í nýrri greinargerð SA um launakostnað.

Íslenska leiðin

Frá árinu 2004 hafa laun hækkað mikið á Íslandi og mun meira en í löndum innan Evrópusambandsins, hvort sem hækkanir eru bornar saman við Evrópusambandið í heild eða evruríkin. Fyrr á þessu ári birti Hagstofa Íslands alþjóðlegan samanburð á heildarlaunakostnaði árið 2004 (e. Labour Cost Survey) á almennum markaði. Samanburður þessi er gerður á fjögurra ára fresti af Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat). Helstu niðurstöður hvað Ísland varðar voru þær að í þeim atvinnugreinum sem könnunin náði til var launakostnaður á Íslandi í öllum tilvikum hærri en að meðaltali í ESB ríkjunum 27 og einnig hærri en að meðaltali í ríkjunum sem nota evru í þremur atvinnugreinum af fjórum. Hvað Ísland varðar nær könnunin til fjögurra atvinnugreina, þ.e. iðnaðar, byggingarstarfsemi, verslunar og samgangna.

Framreikningur launakostnaðar til miðs árs 2007

Frá árinu 2004 til 2. ársfjórðungs 2007 hefur vísitala launakostnaðar hækkað um 24,3% á Íslandi. Á 2. ársfjórðungi 2007 var gengi krónunnar 1,4% hærra gagnvart evru en að meðaltali árið 2004 þannig að í evrum reiknað hækkaði heildarlaunakostnaður á Íslandi um 26,1% að jafnaði á þessu tímabili. Til samanburðar hækkaði heildarlaunakostnaður um 9,9% að meðaltali í evruríkjunum á sama tímabili. Launakostnaður hækkaði þar af leiðandi um tæplega 15% meira á Íslandi en í evruríkjunum.

Heildarlaunakostnaður 30% hærri á Íslandi

Framreikningur niðurstaðna ársins 2004 fram til 2. ársfjórðungs 2007 leiðir í ljós að heildarlaunakostnaður á Íslandi í atvinnugreinunum fjórum er orðinn mun hærri en að meðaltali í evruríkjunum. Mestu munar í byggingarstarfsemi þar sem launakostnaður er 66% hærri, þar á eftir koma samgöngur með 29% hærri kostnað, þá verslun með 26% hærri kostnað og loks kemur iðnaður með 13% hærri kostnað en í evruríkjunum.

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!

 

Ísland í efstu sætum í öllum atvinnugreinum

Framreikningur könnunar Hagstofunnar og Eurostat til 2. ársfjórðungs 2007 á vegnu meðaltali heildarlaunakostnaðar á klukkustund í atvinnugreinunum fjórum í evruríkjunum 13 auk Bretlands, Danmerkur, Svíþjóðar og Íslands leiðir í ljós að launakostnaður er hærri á Íslandi en í öllum evruríkjunum, en hann er einungis hærri í Danmörku þegar litið er til allra landanna í samanburðinum. Launakostnaður er 32,6 evrur á klukkustund á Íslandi en 33,6 evrur í Danmörku. Hæstur launakostnaður í evruríkjunum er í Hollandi en launakostnaður í flestum evruríkjum er á bilinu 25-30 evrur. Lægstur launakostnaður er í Portúgal og Slóveníu, 10 og 11 evrur.

 

Sjá nánar: Greinargerð SA um launakostnað 28.9.2007