Launakönnun VR: hækkuðu launin um 19% eða 10?

Eins og fram hefur komið eru miklar sveiflur í svörun einstakra hópa milli ára í launakönnun VR. Þannig jókst hlutfall stjórnenda og sérfræðinga úr 18% í 31% á milli kannana. Breytingin er það mikil að spyrja má hvort könnunin nái til sama hóps. Samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR hafa dagvinnulaun VR-félaga hækkað um rúm 19% og heildarlaun þeirra um tæpt 21% á 19 mánaða tímabili. Sé vægi einstakra hópa árið 1999 leiðrétt til samræmis við vægi þeirra í könnuninni fyrir árið 2000 kemur í ljós að dagvinnulaunin hafa að meðaltali hækkað um 10%, ekki 19. Miðað við sams konar leiðréttingu hafa heildarlaun á mánuði hækkað um 11% á tímabilinu, ekki um 21%. Sé samanburðurinn hins vegar grundvallaður á vægi hópa í könnuninni 1999 fást tölurnar 16% hækkun dagvinnulauna og 18% hækkun heildarlauna, og skýrist munurinn af mismunandi launaþróun einstakra hópa.

Í könnun fyrra árs var hlutfall stjórnenda og sérfræðinga 18% svarenda launakönnunar VR, en í ár var hlutfall þessa hóps 31%, og vegur þessi munur þungt í niður-stöðunum. Í töflu 1 gefur að líta yfirlit yfir dagvinnu-laun/föst laun skv. launakönnunum VR fyrir árin 1999 og 2000, hlutfall einstakra hópa hvort árið um sig og launahækkun hvers hóps. Sé vægi einstakra hópa árið 1999 leiðrétt til samræmis við vægi þeirra í könnuninni fyrir árið 2000 kemur í ljós að dagvinnulaunin hafa að meðaltali hækkað úr um 175.000 krónum í 192.000, eða um 10%. Í töflu 2 gefur að líta sams konar upplýsingar um heildarlaun á mánuði. Með sams konar leiðréttingu fyrir vægi einstakra hópa fæst sú niðurstaða að heildarlaunin hafi að meðaltali hækkað úr um 199.000 krónum í 221.000, eða um 11%. Sé samanburðurinn hins vegar grundvallaður á vægi hópa í könnuninni 1999 fást allt aðrar tölur, eða 16% hækkun dagvinnulauna og 18% hækkun heildarlauna, og skýrist munurinn af því að laun þeirra hópa sem meira vega í fyrri könnuninni hafa hækkað meira en laun stjórnenda og sérfræðinga.

Sjá töflu 1

Sjá töflu 2

Svipuð niðurstaða og hjá Kjararannsóknarnefnd
Samkvæmt könnun Kjararannsóknarnefndar á launaþróun frá 3. ársfjórðungi 1999 til 3. ársfjórðungs 2000 hækkuðu dagvinnulaun að meðaltali um 8,3%, en þar er byggt á pöruðum samanburði. Könnun VR nær hins vegar yfir 19 mánaða tímabil en ætla má út frá könnun Kjara-rannsóknarnefndar að meðaltalshækkun dagvinnulauna á sama tímabili sé um 9,5%. Sé miðað við vogir ársins 2000 hjá VR er samræmi kannananna tveggja því nokkuð gott, þ.e. 10% hækkun annars vegar og 9,5% hins vegar.

Fleiri atriði sem virka til hækkunar
Niðurstöður könnunar VR byggja á gögnum frá 78% svarenda sem voru 29% félagsmanna í VR, en spurningalistar voru sendir öllum félagsmönnum VR sem uppfylltu ákveðin lágmarksskilyrði. Velta má vöngum yfir því hvort svör þessara 29% VR-manna gefi rétta heildarmynd, en meiri athygli vekur þó sú ákvörðun að byggja niðurstöður könnunarinnar einungis á 78% fenginna svara þar sem m.a. höfðu verið tekin út svör þeirra sem eru í minna en 70% starfshlutfalli. Í skýrslunni kemur fram að þetta sé gert þar sem fyrri rannsóknir bendi til þess að "fólk hafi hlutfallslega lægri grunnlaun eftir því sem það er í lægra starfshlutfalli." Í stað þess að uppreikna laun þessa hóps er honum því sleppt til þess að hann dragi ekki niður meðaltalið. Þá kemur fram að svörunin hjá yngsta hópnum (16 til 20 ára) var verri en hjá öðrum aldurshópum, sem enn dregur úr vægi lægra launaðra hópa í meðaltalinu.

Villandi meðaltalstölur
Tölur um meðaltal geta verið villandi. Sláandi er að ef bornar eru saman tölur könnunarinnar um meðaltal annars vegar og miðtölur hins vegar, er meðaltalið nær alltaf hærra og munar oft miklu. Með öðrum orðum, þeir sem fá hæst laun í hverjum hópi virðast nær alltaf hafa meiri áhrif á meðaltalið en þeir lægst launuðu. Þannig er meirihluti fólks í nær öllum hópum undir meðaltalslaunum síns hóps.

Að lokum
Það sem mestu skiptir varðandi samanburð launa á milli ára er að bornar séu saman sambærilegar tölur. Í launakönnun VR eru miklar breytingar á vægi einstakra hópa á milli ára, líkt og fram hefur komið. Vegur þar þyngst aukið hlutfall stjórnenda og sérfræðinga, eða 31% í stað 18% á fyrra ári, sem eðlilega hefur mikil áhrif á heildarniðurstöður könnunarinnar. Fyrir vikið má setja við það spurningarmerki hvort könnunin sé að bera saman laun sama hóps á milli ára.