Launahækkunum og endurskoðun kjarasamninga verði frestað

Mörg fyrirtæki geta ekki staðið undir launahækkunum um næstu mánaðamót. Samtök atvinnulífsins hafa því tekið jákvætt í hugmyndir forystu ASÍ um að fresta launahækkunum 1. mars næstkomandi. Taka þurfi upp þráðinn í júní vegna breytinga sem annars myndu koma til framkvæmda 1. júlí. Áður höfðu SA sett fram hugmyndir um frestun allra launahækkana til hausts eða jafnvel fram í byrjun næsta árs þegar staða efnahagsmála væri orðin skýrari. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.

 "Við óskuðum eftir því við Alþýðusambandið að fá sveigjanleika um hvernig við getum efnt samninginn og settum fram ýmsar hugmyndir," segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA í samtali við Morgunblaðið og vísar til mikilla erfiðleika og óvissu í atvinnulífinu.

,,Sumir hafa verið að lækka laun og aðrir hafa haldið launum óbreyttum. Ég hygg að margir myndu þá annaðhvort lækka laun á móti hækkununum eða gera einhverjar aðrar ráðstafanir. Einhverjir myndu þurfa að segja fleiri upp en þeir ætluðu. Þarna er um miklar taxtahækkanir að ræða. Samningarnir voru gerðir við önnur skilyrði en eru uppi í dag," segir Vilhjálmur og bætir við: "Við höfum bara verið að leita að skynsemi og friði."