Launahækkanir forstjóra

Grein Hannesar G. Sigurðssonar, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í Fréttablaðinu:

Kjarasamningar borgarinnar við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar, Eflingu og Tæknifræðingafélag Íslands hafa verið til umfjöllunar og vísaði borgarstjóri í tekjublað Frjálsrar verslunar til rökstuðnings um kostnaðarauka samninganna. Var því haldið fram að samningarnir kostuðu 1.500 milljónir króna og það bæri að skoða þá fjárhæð í ljósi þess að laun 100 tekjuhæstu forstjóranna hefðu hækkað um 500 milljónir  króna í fyrra samkvæmt tekjublaðinu. Hér eru nokkur tíðindi á ferð þar sem ég hygg að það sé nýmæli hér á landi að niðurstaða kjarasamninga sé réttlætt með tilvísan í tekjublaðið og hlýtur að vekja sérstaka athygli að fulltrúi launagreiðandans grípi til röksemdar af þessu tagi. 

Um tekjublað Frjálsrar verslunar

Tekjublað Frjálsrar verslunar er ekki fagleg heimild um laun og launabreytingar í tilteknum störfum og getur ekki verið það samkvæmt eðli máls. Tekjublaðið er ekki annað en upptalning á tekjuskattstofni þeirra einstaklinga sem blaðið kýs að birta, en heimild þess eru skattskýrslur einstaklinga. Tekjublaðið er ekki launakönnun þar sem úrtakið er valið af handahófi með tölfræðilegum aðferðum í þeim tilgangi að gefa óbjagaða mynd af heildinni. Í tekjublaðinu eru störf ekki skýrt afmörkuð og þær tegundir endurgjalds sem fyrir þau eru greidd. Árstekjur þær sem birtar eru geta stafað af tekjum af fleiri en einu starfi, starfsskiptum á árinu sem leitt hafa til greiðslu fleiri en 12 mánaðarlauna, skattlagningu dagpeninga og bifreiðahlunninda og þær geta átt rætur sínar í fjármagnstekjum, þ.e. kaupréttarsamningum sem nýttir eru. Þá rata ríflegar áætlanir skattstjóra á óskilvísa framteljendur inn í tekjublaðið, eða er það kannski svo að fyrrverandi framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar hafi haft 2,5 milljónir króna í mánaðarlaun hjá flokknum árið 2004 eins og sagt er í tekjublaðinu? Í ljósi þess að tekjublaðið er ekki vísindaleg eða fagleg launakönnun er vitanlega ekki boðlegt að bera á borð að breytingar milli ára samkvæmt þessari heimild endurspegli raunverulega þróun.

Hvaðan komu 500 milljónirnar?

Ekki tekst mér að finna út hvernig þessi 500 milljóna króna hækkun, sem borgarstjóri gerði að umtalsefni, er fundin út.  Ég gerði það sem mér skildist að heimildarmaður borgarstjóra hefði gert og skráði 100 hæstu tekjuskattstofna árin 2003 og 2004 í flokknum forstjórar skv. tekjublaðinu og fékk út að hækkunin hefði numið 350 m.kr.  Við nánari skoðun kom í ljós að allmikil breyting hafði orðið á samsetningu einstaklinga í þessum hópi og voru 82 þeirra sem voru í síðasta tekjublaði einnig í því árið áður.  Ef breytingar í þeim hópi eru skoðaðar (svokallaðar paraðar breytingar, sem jafnan er byggt á við gerð launavísitalna) kemur í ljós að sumir þeirra hækka um 100% eða meira og aðrir lækka um marga tugi prósenta. Slíkar breytingar ganga undir nafninu útlagar (outliers) í tölfræðinni og er gjarnan sleppt í útreikningum á meðaltölum. Í þeim hópi eru forstjórar nokkurra útrásarfyrirtækja sem notið hafa fádæma velgengni og hafa tekið þátt í þeirri velgengi með því að nýta sér kauprétt á hlutabréfum í þessum fyrirtækjum og greitt af því tekjuskatt. Ef þeim sem hækka og lækka meira en 50% er sleppt í samanburðinum, þá standa 64 einstaklingar eftir, og nam hækkun tekjuskattstofns þeirra 11% að meðaltali milli áranna og ef miðað er við hópinn sem hækkaði eða lækkaði minna en 30% þá nam hækkun tekjuskattstofnsins 9%. Augljóst er að eftir standa áhrif af starfsskiptum á árinu, tekjum af fleiri en einu starfi og nýtingu sumra þessara einstaklinga á kauprétti á hlutabréfum í þeim fyrirtækjum sem þeir veita forstöðu. 

Gróf afbökun í Kastljósi

Starfsfólk þáttarins Kastljóss í Ríkissjónvarpinu bætti heldur um betur sl. þriðjudagskvöld þegar það birti súlurit byggt á tekjublaðinu þar sem gat að líta upplýsingar sem ekki hafa birst áður. Í súluritinu kom fram að á árabilinu 2000-2004 hefðu tekjur forstjóra hækkað um 139%, starfsmenn á fjármálamarkaði um 182%, næstráðendur í fyrirtækjum um 75%, embættismenn og forstjórar ríkisfyrirtæja um 35%, læknar um 24% og félagsmenn ASÍ um 36%.  Til samanburðar kom fram á súluritinu að launavísitala Hagstofunnar hefði hækkað um 29% á tímabilinu. Þessi gögn taldi annar þáttastjórnandinn sýna þróun sem ekki væri hægt að efast um (þótt auðvitað kynni að vera hægt að "deila um einhver smáatriði") og stjórnuðu þau umræðu á þeim grundvelli að þetta væru hinar bláköldu staðreyndir málsins. Eitt þeirra atriða sem ekki flokkast undir smáatriði er að það varpar engu ljósi á launaþróun forstjóra á þessu tímabili að bera hópinn sem taldist til 100 hæstu árið 2000 við hóp þeirra 100 hæstu árið 2004 í ljósi þess að hópurinn gerbreytist á örfáum árum, jafnt einstaklingarnir sem fyrirtækin sem þeir starfa hjá, þar sem árlega falla u.þ.b. 20 einstaklingar brott og aðrir 20 bætast við. 

Staðreyndin er sú að eina talan á súluriti Kastljóssins sem var í námunda við raunverulega tekjuþróun á tímabilinu var hækkun launavísitölunnar. Aðrar tölur geta vart talist annað en gróf afbökun á því sem opinber gögn um raunverulega þróun sýna og ámælisvert að slengja þessum röngu tölum fram. Í fyrsta lagi þá er engar upplýsingar um tekjur félagsmanna ASÍ að finna í tekjublaðinu, en allir kunnáttumenn á sviði kjaramála vita það að laun á almennum vinnumarkaði hafa hækkað minna en launavísitalan og laun opinberra starfsmanna meira, þvert á það sem súluritið gaf til kynna. Hækkanir skv. launavísitölu á þessu árabili, 2000-2004, voru þannig að almennur markaður hækkaði um 26%, opinberir starfsmenn og bankamenn um 33% og meðaltal þessara hópa var 29%. Tölurnar um tekjur læknanna eru dæmi um bjögun þessara upplýsinga tekjublaðsins. Læknar eru meðal þeirra stétta sem notið hafa hvað jákvæðastrar tekjuþróunar á undanförnum árum, en samkvæmt súluriti Kastljóss-fólksins hækkuðu meðallaun þeirra sem fyrr segir langminnst þeirra hópa sem þar birtust eða aðeins um 24%.  Trausta heimild um tekjuþróun 500 sjúkrahúslækna er að finna í fréttabréfum Kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna en í þeim kemur fram að tekjur þeirra hækkuðu um 54% á árunum 2000-2004. Á tölur tekjublaðsins um launaþróun hópanna næstráðendur, embættismenn og forstjóra ríkisfyrirtækja er ekki ástæða til að eyða orðum í ljósi þeirra aðferðafræðilegu galla sem hér hefur verið bent á. Sama gildir um hina gríðarlega háu prósentutölu um hækkun skattskyldra tekna starfsmanna á fjármálamarkaði sem koma fram í súluritinu en veruleikinn þar að baki er útrás bankanna á þessu tímabili, aukning fjárfestingarbankastarfsemi og gríðarleg fjölgun hálaunastarfa í bankakerfinu og jafnframt fækkun lægri launaðra starfa.

Launaþróun forstjóra og verkafólks

Hagstofa Íslands, og áður Kjararannsóknarnefnd, hafa birt upplýsingar um launabreytingar stjórnenda frá árinu 2002. Þessar breytingar ásamt launabreytingum verkafólks á tímabilinu sjást á meðfylgjandi línuriti. Þær sýna að verkafólk hefur hækkað meira en stjórnendur allan þennan tíma. Hagstofa Íslands og Kjararannsóknarnefnd hafa einnig birt upplýsingar um meðaltekjur stjórnenda á því tímabili sem súlurit Kastljóssins lagði til grundvallar. Þær upplýsingar byggja á um 500-600 stjórnendum og sýna þær að meðaltekjur þeirra hækkuðu um 29% á tímabilinu, eða nákvæmlega jafn mikið og launavísitalan.  Þessir stjórnendur eru fjarri því að vera allir forstjórar eða framkvæmdastjórar, því auk þeirra teljast til hópsins fjármálastjórar, markaðsstjórar, skrifstofustjórar, sölustjórar, starfsmannastjórar, framleiðslustjórar, verslunarstjórar o.fl.

Launabreytingar

Launakönnun ParX

Fyrirtækið ParX  Viðskiptaráðgjöf IBM gerir einnig könnun á launum fjölmargra starfsgreina, m.a. forstjóra. Könnunin á sér langa sögu og var upphaflega á vegum Hagvangs, síðan PWC og hefur rekjanleika til ársins 1979. Könnunin er ekki tilviljanakennd úrtakskönnun, (frekar en tekjublað Frjálsrar verslunar), heldur óska fyrirtæki eftir þátttöku og greiða fyrir upplýsingarnar. Niðurstöðurnar eru með öðrum orðum ekki opinberar. Könnunin er mjög fagmannlega unnin hvað varðar skilgreiningar, flokkun og framsetningu. Eigendur könnunarinnar hafa veitt leyfi til þess að í þessari grein birtist eftirfarandi niðurstöður fyrir tímabilið 2000-2005. Könnunin er gerð í september ár hvert og tóku 87 fyrirtæki þátt í henni á þessu ári og hefur fjöldinn verið svipaður frá ári til árs. Hlutfallslegar breytingar í einstökum störfum eru reiknaðar út frá þeim fyrirtækjum sem þátt taka í könnuninni tvö samliggjandi ár. Niðurstöður könnunar ParX eru þær að föst laun forstjóra (alls 41 í sept. 2005) hafi hækkað um 37% frá september 2000 til september 2005, en á sama tíma hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 37%. Föst laun framkvæmdastjóra (alls 117) hækkuðu um 38% á sama tíma.  Á þessu ári, frá september 2004 til september 2005, hækkuðu föst laun forstjóra um 3,4%.

Niðurstaðan er því sú að launatekjur forstjóra og stjórnenda almennt hafa á undanförnum árum þróast í takt við laun almennt samkvæmt fyrirliggjandi heimildum.  Launakönnun Hagstofunnar sýnir að tekjur stjórnenda hafa hækkað í takt við launavísitölu og hækkað minna en tekjur verkafólks. Launakönnun PARX sýnir að föst laun forstjóra og framkvæmdastjóra hækkuðu nákvæmlega jafn mikið og launavísitala á tímabilinu september 2000 til september 2005. Loks sýnir úrvinnsla á upplýsingum úr tekjublaði Frjálsrar verslunar, þar sem verstu agnúar eru sniðnir af, að breyting á tekjuskattstofnum þeirra forstjóra sem valið er að birta í blaðinu var eins stafs prósentutala að meðaltali. Allar tiltækar og trúverðugar heimildir benda sem sagt til þess að föst laun forstjóra hafi hækkað í samræmi við almenna launaþróun, en ekki hækkað næstum því fimm sinnum meira eins og starfsfólk Kastljóssins bar á borð á þriðjudagskvöldið.

Betri upplýsingar um laun og launabreytingar

Tekjublað Frjálsrar verslunar selst grimmt á hverju ári og svalar forvitni fjölmargra um tekjur þekkts fólks.Tekjublaðið sem slíkt getur hins vegar ekki orðið grundvöllur staðtalna um laun og launabreytingar. Til þeirra nota höfum við Hagstofuna og kjararannsóknarnefndir og á þeim vettvangi er reynt að gefa sem skýrasta mynd af launakjörum og launabreytingum í einstökum störfum og atvinnugreinum. Þetta ætti bæði borgarstjóra og fréttamönnum Ríkisútvarpsins að vera ljóst. Um þessar mundir er unnið að miklum endurbótum á launaupplýsingum Hagstofunnar og er fyrirhugað að gefa út breyttar og bættar upplýsingar á næstu mánuðum. Á grunni upplýsinga Hagstofunnar ber að ræða fjárhæðir sem greiddar eru í laun og breytingar þeirra. Umræða á grundvelli tekjublaðs Frjálsrar verslunar er hins vegar villandi og marklaus og það er fráleitt að tengja saman hækkun hlutabréfaverðs skráðra fyrirtækja í Kauphöll Íslands og kaupréttarákvæði í samningum stjórnenda þeirra við launabreytingar í kjarasamningum.