Laun hækkuðu um 0,8% í júní

Samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar hækkuðu laun á Íslandi að meðaltali um 0,8% í júní miðað við maí, og er þetta svipuð hækkun og undanfarna mánuði. Kaupmáttur launa á öðrum ársfjórðungi er að meðaltali um 25,1% meiri en árið 1995. Athygli vekur að á sama tíma og kaupmáttur hefur aukist um 18,5% á almennum markaði, samkvæmt þessum mælingum, hefur hann aukist um 35,5% á meðal opinberra starfsmanna og bankamanna. Rétt er þó að geta þess að mælingar Kjararannsóknarnefndar sýna meiri kaupmáttaraukningu á almennum markaði en tölur Hagstofunnar gefa til kynna.