Langur listi vanefnda stjórnvalda vegna kjarasamninga

Samtök atvinnulífsins telja að stjórnvöld hafi ekki staðið við nokkrar veigamestu forsendur gildandi kjarasamninga en þær verða metnar í janúar nk. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið ekki gefið að laun hækki 1. febrúar nk. "Við veltum því fyrir okkur hvaðan innistæðan fyrir launahækkun eigi að koma." Vilhjálmur segir forsendur samninganna ekki standast og því þurfi SA að íhuga viðbrögð og ræða við samningsaðila. Yfirlit yfir fjölmörg loforð stjórnvalda sem gefin voru í tengslum við undirskrift kjarasamninganna má nú nálgast á vef SA.

Eins og sjá má hér að neðan er loforðalistinn langur en því miður hefur verið staðið við allt of fá þeirra. Hægt er að stækka myndina með því að smella á hana.

Smelltu til að stækka myndina

Vilhjálmur Egilsson segir deginum ljósara að skattahækkanir á fyrirtæki og einstaklinga upp á 22,5 milljarða á næsta ári muni þrengja mjög að fyrirtækjum og svigrúmi þeirra til fjárfestinga. Ríkisstjórnin ætli að auka útgjöld og senda fyrirtækjum reikninginn. Með þessu séu stjórnvöld að falla frá fyrri stefnu í stöðugleikasáttmálanum um að ná fram jöfnuði með blöndu af skattahækkunum og niðurskurði.

Meðal fyrirheita af hálfu ríkisstjórnarinnar var að fjárfesting yrði ekki undir 350 milljörðum 2013. Vilhjálmur segir óraunhæft að ná því markmiði m.v. stöðu mála. "Ríkisstjórnin hefur að okkar mati nálgast þessi fyrirheit af ótrúlegri léttúð. Það var augljóslega ekki efst á forgangslista hennar að standa við þau. Reyndar hefur maður á tilfinningunni að sumir stjórnarliðar telji sig með öllu óbundna af þeim. Launahækkanir voru m.a. byggðar á þeirri forsendu að fjárfesting myndi aukast, að hagvöxtur yrði 4-5% og að krónan myndi styrkjast samfara vexti í hagkerfinu. Þar hefur ekkert gengið eftir. Fjárfesting er áfram í sögulegri lægð. Við brjótum því heilann um hvaðan innistæðan fyrir frekari launahækkunum eigi að koma. Hér standa veigamikil atriði út af frá því sem lofað var."

ASÍ hefur einnig gagnrýnt ríkisstjórnina harkalega fyrir að hafa ekki staðið við gefin loforð í tengslum við kjarasamningana. Boðuð sókn í atvinnumálum hafi t.a.m. ekki gengið eftir.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur gagnrýnt SA fyrir að benda á stöðuna eins og hún er. Vilhjálmur Egilsson, segir í Morgunblaðinu í dag, að eðlilegt sé að benda á það þegar stjórnvöld hafi ekki getu eða vilja til að standa við það sem þau skrifa undir við gerð kjarasamninga.

Sjá nánar:

Umfjöllun fréttastofu RÚV - Sjónvarps. Smelltu til að horfa

Mbl.is: "Þá þyrfti ekki þessa aðkomu ríkisstjórnarinnar"

Ítarlega er fjallað um málið í fréttaskýringum í Morgunblaðinu 20. og 21. september.

Tengt efni:

Dapurlegar niðurstöður vinnumarkaðsrannsóknar

Skattar hækka um 22,5 milljarða 2013 - auknar líkur á stöðnun