Efnahagsmál - 

16. desember 2003

Lagi sig að leikreglum á almennum vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Lagi sig að leikreglum á almennum vinnumarkaði

Starfsgreinasambandið, að meðtöldu Flóabandalagi, hefur kynnt Samtökum atvinnulífsins nýja kröfugerð í lífeyrismálum, þar sem farið er fram á sambærileg lífeyrisréttindi og ríkisstarfsmenn búa við. Meðal annars er farið fram á að lágmarksávinnsla lífeyris hækki úr 1,4% í 1,90% á ári, að mögulegt upphaf lífeyristöku verði við 60 ára aldur, og að launagreiðandi ábyrgist umsamin lágmarks lífeyrisréttindi.

Starfsgreinasambandið, að meðtöldu Flóabandalagi, hefur kynnt Samtökum atvinnulífsins nýja kröfugerð í lífeyrismálum, þar sem farið er fram á sambærileg lífeyrisréttindi og ríkisstarfsmenn búa við. Meðal annars er farið fram á að lágmarksávinnsla lífeyris hækki úr 1,4% í 1,90% á ári, að mögulegt upphaf lífeyristöku verði við 60 ára aldur, og að launagreiðandi ábyrgist umsamin lágmarks lífeyrisréttindi.

Í samtali við Morgunblaðið segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, að eðlilegt sé að lífeyrisréttindi á almennum vinnumarkaði verði samræmd, en sú samræming verði að vera þannig að opinberir launagreiðendur lagi sig að þeim leikreglum sem gildi á almennum vinnumarkaði.

Ekki heppilegt fyrirkomulag
"Það hefur alveg legið fyrir að við teljum ekki að sú uppbygging á lífeyrisréttindum sem er við lýði í opinberu sjóðunum, þ.e.a.s. að tryggja tiltekinn ávinning með bakábyrgð launagreiðandans án tillits til ávöxtunar sjóðanna, sé heppileg fyrir utan auðvitað þann gríðarlega kostnaðarauka sem væri samfara því að samþykkja þessa kröfu," sagði Ari. Hann sagði að hækkanir af þessum sökum, þ.e. vegna aukinna lífeyrisréttinda, væru sama eðlis og aðrar launakostnaðarhækkanir.

"Það sem er auðvitað algerlega ófært er að opinberir launagreiðendur, sem hafa skattlagningarvald, hvort sem það eru ríki eða sveitarfélög, séu að fara með réttindi á sínum hluta vinnumarkaðarins inn á brautir og í þær hæðir sem almennt atvinnulíf í landinu á enga möguleika á að fylgja eftir. Sú þróun getur auðvitað ekki haldið áfram. Auðvitað væri eðlilegt að samræma lífeyrisréttindin á vinnumarkaðnum, en sú samræming verður að vera þannig að opinberir launagreiðendur lagi sig að þeim leikreglum sem gilda á almennum markaði."

Samtök atvinnulífsins