Lag að hefja vaxtalækkanir

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið, um ákvörðun Seðlabankans að halda stýrivöxtum óbreyttum, að nú hefði verið lag að hefja vaxtalækkunarferli. Hann undrast þá greiningu sem kemur fram í Peningamálum. „Ætla mætti að álit bankans sé að undir öllum kringumstæðum skuli hækka stýrivexti," segir Vilhjálmur og telur bankann hafa ætlað sér um of í baráttunni við verðbólguna. „Peningamálastefnan hefur reynst gagnslaus. Takmörk eru fyrir því hverju hægt er að áorka með vaxtastefnu." Vilhjálmur segir vandann fyrst og fremst liggja í hækkun fasteignaverðs. Skilaboð ríkisstjórnarinnar með lækkun lánshlutfalls gefi til kynna alvöru atlögu að verðbólgunni. Vaxtastefna Seðlabankans dugi ekki til.