Lækkun á skattlagningu matvæla hefur skilað sér í verðlagi

Á grundvelli upplýsinga frá verðlagseftirliti ASÍ hafa síðustu daga birst sérkennilegar túlkanir og fyrirsögnum verið slegið upp í fjölmiðlum þess efnis að breyting á skattlagningu matvæla frá 1. mars sl. hafi ekki skilað sér í lækkun verðlags. Ýmist er sagt að niðurstaðan sé óviðunandi, óásættanleg eða óþolandi fyrir neytendur. Sem betur fer er hér um rangfærslur að ræða sem ekki eru í samræmi við verðmælingar Hagstofu Íslands.

Á meðfylgjandi mynd er sýnd þróun vísitölu neysluverðs frá febrúar 2007 og matvöru- og húsnæðisliða hennar. Þar má glöggt sjá að skattalækkunin skilaði sér strax mjög vel í verðlagi á mat- og drykkjarvörum, sem lækkuðu um 7,4% í mars og í apríl var matvöruverð 8,2% lægra en í febrúar, líkt og að var stefnt. Eins og myndin sýnir hafa síðan orðið litlar breytingar á þessum lið vísitölunnar og almennt minni til hækkunar en á öðrum þáttum.

Vísitala neysluverðs og undirvísitölur frá febrúar 2007
Febrúar 2007 = 100Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu!

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!

Mat á áhrifum lækkunar vörugjalda er flókið viðfangsefni og verður seint komist að endanlegri niðurstöðu um áhrif þeirra. Sé litið á einn stærsta vöruflokkinn sem vörugjöld voru felld niður af, þ.e. gosdrykki, safa og vatn, þá lækkaði hann um 18,2% í mars og um 1,5% til viðbótar í apríl. Lækkun virðisaukaskatts á þessar drykkjarvörur úr 24,5% í 7% gaf tilefni til 14% lækkunar þannig að draga má þá ályktun að lækkunin umfram það hafi stafað af lækkun vörugjaldanna. Eftir þann tíma hækka og lækka þessar vörur frá einum tíma til annars eftir aðstæðum á hverjum tíma, en það sem eftir stendur er að lækkun virðisaukaskatts og vörugjalds var skilað til neytenda í mars og apríl og að þessar vörur eru að meðaltali ríflega 11-12% lægri í verði en þær voru á árunum 2003-2004.

Mikil verðbólga er sannarlega áhyggjuefni, en eins og flestum er ljóst er það húsnæðisliðurinn sem leiðir hana, aðallega hækkun á markaðsverði húsnæðis. Án húsnæðis hækkaði vísitala neysluverðs um 1,2% síðastliðna tólf mánuði. Ferðir og flutningar hafa einnig hækkað í verði síðustu mánuði, einkum vegna hækkunar á eldsneytisverði. Þjónustuliðir vísitölunnar hafa ennfremur hækkað nokkuð, sem gefur til kynna undirliggjandi verðbólguþrýsting.

Því má vissulega halda fram að skattabreytingin hefði mátt skila sér ennþá betur en raun hefur orðið á, sérstaklega með meiri lækkun á verðlagi veitingahúsa og frekari lækkun vegna vörugjalds. Styrking á gengi krónunnar undanfarna mánuði sjást auk þess aðeins takmörkuð merki í verðlagsþróun. Þetta gildir þó um verðlag almennt en ekki aðeins matvöruverð. Kjarni málsins er þó sá að breyting á skattlagningu matvæla fyrr á þessu ári hefur í aðalatriðum skilað sér vel í lækkun verðlags og hafa matvörur verið leiðandi til lækkunar á neysluverði síðustu mánuði, eins og að var stefnt. Er það fráleitt að halda öðru fram.