Lægstu laun hafa hækkað hlutfallslega mest (1)

Mjög hefur verið rætt um þróun lægstu launa hér á landi í kjölfar kjarasamninga sem gerðir voru 21. desember síðastliðinn milli SA og aðildarsamtaka ASÍ. Hafa samningarnir meðal annars verið gagnrýndir fyrir að hækka ekki lægstu laun nægjanlega mikið umfram almenna launahækkun. Niðurstaða samninganna var 2,8% almenn launahækkun, þó að lágmarki 8.000 kr. á mánuði. Sérstök hækkun lægstu launa var útfærð þannig að launataxtar undir 230.000 kr. hækkuðu um 9.750 kr., eða sem samsvarar 5% á lægstu byrjunarlaun.

Í þessu felst að lægstu laun hækka nálægt tvöfalt meira hlutfallslega en hærri laun. Það er svipuð niðurstaða og  undanfarin ár, en samningurinn nú felur í sér að sjöunda árið í röð eru lægstu laun hækkuð umtalsvert umfram hærri laun.

Frá ársbyrjun 2008 til janúar 2014 hækkuðu lágmarkslaun (lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf) um 71% á sama tíma og almennar launahækkanir samkvæmt kjarasamningum námu 28%. Launavísitala Hagstofunnar hefur á þessum tíma hækkað um 40%.

Nýgerður kjarasamningur felur í sér framhald stefnu kjarasamninga síðustu ára að hækka lægstu laun sérstaklega. Niðurstaðan er sú að kaupmáttur lágmarkslauna er í janúar 2014 15% hærri en í janúar 2008 en kaupmáttur á mælikvarða launavísitölu er u.þ.b. 3% lakari.

Mynd - hækkun lágmarkslauna og kaupmáttar

Það eru takmörk fyrir því hversu mikið lægstu launa geta hækkað umfram laun sem hærri eru. Gögn þar að lútandi voru sett fram í skýrslu aðila vinnumarkaðarins, "Í aðdraganda kjarasamninga", í október síðastliðnum fyrir tímabilið 2008-2013. Þar kom fram að stefnan um sérstaka hækkun lægstu launa hafði skilað þeim árangri framan af tímabilinu að launabilin á almenna vinnumarkaðnum minnkuðu en sú þróun stöðvaðist á síðari hlutanum.

Þróun á hlutfalli lágmarkslauna og miðtölu reglulegra mánaðarlauna sem voru 354.000 krónur árið 2012 sést á meðfylgjandi mynd. Hlutfallið var 45-50% á tímabilinu 2000-2007 en hækkaði jafnt og þétt frá 2008-2011 upp í 54%. Á árunum 2012-2013 var hlutfallið 54,5% og mun hækka á þessu ári ef markmið um launaþróun ganga eftir. Þróunin sýnir afdráttarlaust að komið er að endimörkum þessarar stefnu. Það kemur alltaf að því að sérstök hækkun lægstu launa nær ekki því markmiði að þjappa saman launabilum heldur færist með launaskriði upp allan launastigann.

Mynd: Hækkun lágmarkslauna miðgildi

Boltinn er hjá fyrirtækjunum

Meginmarkmið SA við gerð þessa kjarasamnings var að launahækkanir yrðu ekki meiri en samrýmist almennum forsendum um verðlagsstöðugleika. Seðlabankinn hefur ítrekað bent á að launahækkanir hafi á undanförnum árum verið langt umfram það sem samrýmist verðbólgumarkmiði bankans og valdið verðbólgu með tilheyrandi kostnaði fyrir heimili og fyrirtæki. Sá kostnaður er landsmönnum vel kunnur og felst í mun hærra vaxtastigi en í nágrannalöndunum, auk mikillar hækkunar verðtryggðra skulda heimila og fyrirtækja.

Seðlabankinn hefur lýst því yfir að hækkun launavísitölu á ári hverju geti að hámarki verið 3,5-4% ef 2,5% verðbólgumarkmið bankans á að nást. Það er mat samningsaðila að hækkun launavísitölu vegna nýgerðra kjarasamninga muni nema um 3,9% á árinu 2014. Sú hækkun er tilkomin vegna 2,8% almennrar launahækkunar, 0,35% viðbótarkostnaðar vegna sérstakrar hækkunar lægstu launa og 0,75% vegna ýmissa persónubundinna þátta, s.s. starfsaldurstengdra hækkana og starfsþróunar. Nýgerðir kjarasamningar eru þannig innan þessara viðmiðunarmarka Seðlabankans, en jafnframt er ljóst að lítið má út af bregða í framkvæmd þeirra.

Mestu máli skiptir hvernig kaupmáttur launa þróast á árinu. Íslendingar eru skaðbrenndir af víxlhækkunum launa og verðlags undanfarin ár og áratugi. Þrátt fyrir að laun hafi hækkað tvöfalt meira á ári að jafnaði undangengna tvo áratugi, samanborið við önnur Norðurlönd, þá hefur kaupmáttarþróun verið lakari hér á landi.

Kjarasamningarnir nú eru fyrsta skrefið í átt að kaupmáttaraukningu að norrænni fyrirmynd. Til að svo megi verða þarf hins vegar samstillt átak fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkis til aðhalds í verðhækkunum. Sveitarfélögin hafa þegar gefið tóninn hvað þetta varðar, en flest þeirra hafa lýst yfir að verðhækkanir vegna ársins 2014 verði litlar sem engar. Ríkisstjórnin hefur einnig lagt sitt lóð á vogarskálarnar með fyrirheitum um að verði kjarasamningar samþykktir muni hluti hækkana, sem Alþingi samþykkti fyrir áramót, verða dregnar til baka. Boltinn er því hjá fyrirtækjunum, að leita leiða til að kostnaðarauki samninganna velti ekki út í verðlagið, og þau hafa í hendi sér að samningarnir leiði til aukins kaupmáttar launa á árinu 2014.