Lægra gengi – besta mótvægisaðgerðin

"Ríkisstjórnin tilkynnti um ýmsar mótvægisaðgerðir samhliða ákvörðun um aðeins 130 þúsund tonna þorskafla á næsta fiskveiðiári. Mikilvægasta mótvægisaðgerðin fyrir sjávarútveginn og landsbyggðina væri hins vegar lægra gengi krónunnar. Nú eru skýrar efnahagslegar forsendur fyrir því að Seðlabankinn lækki vexti og hætti stuðningi sínum við alltof hátt gengi krónunnar.

Ríkisstjórnin leggur til atlögu við verðbólguna

Ríkisstjórnin hefur nú gert alvöru atlögu að verðbólgunni með lækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs í 80% og bankarnir hafa brugðist við með því að hækka vexti á verðtryggðum íbúðalánum. Þessi aðgerð á að stemma stigu við hækkunum á fasteignaverði sem hafa leitt verðbólguþróunina á undanförnum mánuðum og skapað óþarfa hættu á hruni á fasteignamarkaðnum. Allar líkur benda til þess að verðhækkanir á fasteignum verði litlar á næstu mánuðum.

Tekjur ríkissjóðs á fyrstu mánuðum ársins benda til þess að afkoman verði mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir jafnvel þótt einhver útgjöld verði af mótvægisaðgerðum fyrir landsbyggðina. Ekki kæmi á óvart þótt afkomubatinn á árinu verði yfir 1% af vergri landsframleiðslu sem vinnur ennfremur gegn þenslu og verðbólgu.

Bitlítil vaxtastefna vinnur gegn sjálfstæðu gengi

Seðlabankinn virðist hins vegar vera kyrfilega læstur inni í vaxtastefnu sinni. Bankinn telur að hann muni halda stýrivöxtum óbreyttum út þetta ár. Það er líka athyglisvert að gengi krónunnar styrkist fyrstu dagana eftir að tilkynnt er um samdrátt í þorskveiðum sem mun minnka landsframleiðsluna um 1% frá því sem annars hefði orðið. Í spá Seðlabankans er gert ráð fyrir hægri veikingu gengisins á næsta og þarnæsta ári. En bankinn telur að gengislækkun nú kalli á frekari hækkun stýrivaxta og ennfremur að væntanlegar framkvæmdir í Helguvík geri slíkt hið sama. Það er því nokkuð sama hvort gengur vel eða illa. Bankinn sér ekki möguleika á því að lækka vexti. Það er helst að gæla megi við slíkt þegar atvinnuleysi er komið yfir 3%.

Vaxtastefna Seðlabankans hefur verið bitlítil á verðbólguna af ýmsum ástæðum, einkum vegna uppbyggingar lánamarkaðarins. Bankinn færist of mikið í fang miðað við getu sína og afleiðingin er gengissveiflur sem illbúanlegt er við fyrir atvinnulífið. Þótt bankinn vilji reyna að ná árangri með gengishækkunum sem helsta miðlunartæki vaxtahækkana hefur það sýnt sig að gengið fellur tiltölulega hratt með tilheyrandi verðhækkunum þegar markaðurinn missir trúna á að hágengið fái staðist.

Með núverandi vaxtastefnu sinni er Seðlabankinn ennfremur að vinna gegn því að krónan virki eðlilega sem sjálfstæður gjaldmiðill. Almennt séð er eðlilegt að krónan lækki þegar áföll verða í útflutningsgreinum og horft er fram á minnkandi eftirspurn í hagkerfinu. Nú spáir bankinn verulegum samdrætti þjóðarútgjalda þrjú ár í röð og sjávarútvegurinn fær á sig mikinn aflasamdrátt. Það er því eðlilegt að krónan lækki við þessar aðstæður og að bankinn hætti að reyna að beita gjaldmiðlinum sem miðlunartæki peningastefnunnar.

Meginþunginn í hagstjórninni þarf að vera á að tryggja gott jafnvægi á mikilvægustu mörkuðum hagkerfisins, s.s. vinnumarkaðnum og fasteignamarkaðnum, og halda fjármálum hins opinbera í lagi. Nú virðast ríkisfjármálin vera í betri stöðu en áður var talið og væntanlega dregur verulega úr verðhækkunum á fasteignum. Næsta mál hjá ríkisstjórninni ætti að vera að opna betur vinnumarkaðinn fyrir sérfræðingum utan EES ríkja.

Umræður um fiskveiðistjórnun á villigötum

Undanfarnar vikur hafa verið miklar umræður um fiskveiðistjórnun. Þær hafa því miður ekki allar verið vel grundaðar. Það er t.d. ekki hægt að reikna með því að þorskstofninn stækki af því einu að einhverjir aðrir veiði fiskinn en þeir sem gera það núna. Það er heldur ekki hvatning til ábyrgrar umgengni um auðlindina að leggja til að þeir sem nú verða fyrir verulegum samdrætti eigi að gjalda þess um ókomin ár með því að færa veiðiheimildir þeirra til einhverra verðugari aðila þegar þorskstofninn réttir aftur úr kútnum. Enn síður er líklegt til árangurs að leggja til að fiskveiðiheimildir verði færðar með stjórnvaldsaðgerðum frá einu póstnúmeri til annars. Það er ekkert fast samband á milli þess hvar skip og aflahlutdeildir eru skráðar og hvar fiski er landað og hvort og hvernig hann er unninn. Varla er meiningin að taka upp víðtæk höft á viðskipti í sjávarútvegi.

Vextir verða að lækka

Þróun afurðaverðs á erlendum mörkuðum hefur verið sjávarútvegnum hagstæð á undanförum árum. Hann hefur þó ekki notið þeirra aðstæðna nema að litlu leyti vegna styrkingar krónunnar. Verð sjávarafurða hækkaði að meðaltali um 16% í erlendri mynt frá árinu 2002 til maí á þessu ári, en um aðeins 4% í íslenskum krónum. Ástæðan er styrking krónunnar um 12% á þessu tímabili. Peningastefnunni hefur verið beitt til þess að stuðla að styrkingu krónunnar í góðu árferði en nú þegar illa horfir boðar Seðlabankinn áframhaldandi hávaxta- og hágengisstefnu næstu misserin.

Sjávarútvegurinn þarf einmitt á því að halda nú frekar en nokkru sinni fyrr að hægt sé að gæta ýtrustu hagkvæmni í rekstri. Allt sem íþyngir greininni eða leggur á hana sérstakar skyldur umfram aðrar atvinnugreinar gerir illt verra. Þess vegna er mikilvægasta mótvægisaðgerðin fyrir sjávarútveginn að gengi krónunnar tryggi eðlilega samkeppnisstöðu útflutnings- og samkeppnisgreina.

Seðlabankinn er í stöðu til þess að lækka stýrivexti, hann var það við vaxtaákvörðunina 5. júlí og hann mun enn frekar verða það í september. Verðhækkanir næstu mánuði verða að öllum líkindum umtalsvert minni en stefndi í. Bankinn verður að losna út úr sjálfheldu vaxtastefnu sinnar. Það fær engan veginn staðist að gengi krónunnar skuli hækka þegar helsta útflutningsgreinin verður fyrir öðrum eins hremmingum og sjávarútvegurinn nú."

Vilhjálmur Egilsson