Kyoto-viðræður sigla á sker

Um hádegisbil í dag var viðræðum slegið á frest um framhald Kyoto-bókunarinnar á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn. Ástæðan er sú að fjölmörg ríki hafa lagt fram tillögur um breytingar á bókuninni þar sem m.a. eru gerðar mun ríkari kröfur um samdrátt útstreymis í iðnríkjunum en þau hafa verið tilbúin að fallast á.

Áður hefur komið fram að ESB vill helst að niðurstaða ráðstefnunnar verði eitt samkomulag þar sem tekið er á málunum í heild. Í gær lýstu Rússar því eindregið yfir að vilyrði þeirra um 20-25% minnkun útstreymis til ársins 2020 væri einungis sett fram í samhengi við heildarsamkomulag og fulltrúi Japans lýsti yfir að vilyrði þeirra væri ekki hugsað fyrir Kyoto-bókunina heldur sem hluti af heildarsamkomulagi.

Forseti loftslagsráðstefnunnar mun nú halda óformlega fundi með fulltrúum sendinefnda og freista þess að blása lífi í viðræðurnar að nýju.

Í gær var fundum um nýjar bókanir við samninginn sömuleiðis frestað en fyrir liggja 5 tillögur um nýjar bókanir við samninginn. Þá náðist heldur ekki samkomulag um hvernig fara skuli með þessar tillögur. Hluti ríkja vildi ræða tillögurnar en annar hluti einbeita sér að ná niðurstöðu út frá þeim samningsskjölum sem þegar liggja fyrir um langtímasamkomulag.

Ísland hefur enn sem komið er lítið haft sig í frammi á opnum fundum ráðstefnunnar. Það mun breytast í næstu viku en gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra Íslands muni ávarpa ráðstefnuna seint á fimmtudagskvöld. Á fimmtudag er gert ráð fyrir ávörpum ráðherra allan daginn og langt fram á aðfaranótt föstudags.

Vonast er til að ráðherrann leggi áherslu á mikilvægi endurnýjanlegrar orku og haldi fram möguleikum Íslands í því sambandi. Eins og fram hefur komið er nýting orkulinda Íslands það besta sem íslensk stjórnvöld geta lagt fram til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

Pétur Reimarsson

Sjá nánar:

Yfirlit pistla um loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn