Kvikmyndaframleiðsla atvinnugrein á uppleið

Góðir möguleikar eru á að byggja upp þjónustu í kringum kvikmyndaframleiðslu á landsbyggðinni.  Á þetta benti Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi á Hugmyndaþingi SA á Hofsósi. Sagði hann sveiflur á íslensku krónunni hafa valdið greininni miklum skaða en aðstæður nú séu hagstæðar til að laða erlend verkefni til landsins. Nauðsynlegt sé að efla innlend kvikmyndafyrirtæki til að takast á við krefjandi verkefni en þau hafi í gegnum tíðina verið of mörg og smá.

Framleiðsla í föstum farvegi

Friðrik fjallaði um stöðu og horfur í íslenskri kvikmyndagerð á þinginu en hann leggur nú lokahönd á heimildarmynd um einhverfu. Í ljósi þess að rætt var um nýsköpun og atvinnutækifæri á þinginu sagðist hann hafa komist að því að einhverfir einstaklingar hafi víða komið að sköpun nýrra og merkra hugmynda sem hafi veitt fjölda fólks atvinnu í gegnum tíðina.    

Friðrik Þór Friðriksson

Í máli Friðriks kom fram að kvikmyndagerð á Íslandi væri komin í nokkuð fastan farveg en unnt væri að framleiða hér heima 4-5 kvikmyndir á ári sem kosti um 200 milljónir króna hver.  Auk þess að sækja stuðning í opinbera sjóði væri hægt að sækja fé til erlendra aðila og áhættan af slíkri framleiðslu því ekki mikil. Oft væri þó auðveldara að fjármagna stjörnum prýddar myndir sem kosti í kringum 2 milljarða króna í framleiðslu, þar sem hægt sé að selja þær beint til dreifingaraðila og tryggja strax tekjur í kassann.

Góð umgjörð nauðsynleg

Varðandi möguleika landsbyggðarinnar á að byggja upp þjónustu í kringum tökur á innlendum og erlendum kvikmyndum sagði Friðrik nauðsynlegt að byggja upp góða umgjörð, t.d. hótel í nágrenni við aðgengilega náttúru. Tækniþróun hafi auðveldað kvikmyndagerðarmönnum lífið að mörgu leyti og gert þeim auðveldara að vinna úti í óbeislaðri náttúrunni sem erlendir kvikmyndagerðarmenn sæki í. Benti Friðrik á að í Noregi og Svíþjóð eru starfræktir sérstakir sjóðir sem styrkja kvikmyndir sem teknar eru á ákveðnum svæðum og sagði hann að mögulega gæti verið klókt að koma upp slíkum staðbundnum kvikmyndasjóðum á Íslandi. Kvikmyndagerð eigi heima á landsbyggðinni.

Íslenskt leiksvið
Kvikmyndir leika lykilhlutverk

Kvikmyndaframleiðsla á Íslandi byggir á mörgum tiltölulega smáum fyrirtækjum sem hafa fjárfest dýrum dómum í tækjabúnaði sem úreldist hratt. Friðrik sagði æskilegt að þau væru stærri og öflugri en greinin hefur gengið í gegnum miklar og erfiðar sveiflur á köflum. Friðrik lagði á það áherslu að opinberir styrkir til kvikmyndaframleiðslu skiluðu sér margfalt til baka til þjóðarbúsins, meðal annars í auknum ferðamannastraumi. Kvikmyndir væru lykilþáttur í að byggja upp ímynd landsins - grunnþáttur í að efla vitund heimsbyggðarinnar um tilveru lands og þjóðar og það sem hún hefur fram að færa.