Kveðjum Lindarhvol ehf. með gleði í hjarta og þökk fyrir liðið

Stórar fréttir fá oft enga athygli. Það er ekki á hverjum degi sem ríkissjóði áskotnast í einu vetfangi stórt og fjölbreytt eignasafn að verðmæti nokkur hundruð milljarðar króna. Sú varð þó raunin árið 2016. Við uppgjör slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja afhentu þau ríkissjóði svokallað stöðugleikaframlag í skiptum fyrir að halda sínum erlendu eignum utan innlendra fjármagnshafta.

Það er rétt að hrósa stjórnvöldum fyrir staðfestu við úrlausn þessa verkefnis. 

Áætlað virði eignanna var á þeim tíma 384 milljarðar króna og innihélt eignasafnið allt frá lausu fé til stórra eignarhluta í innlendum fyrirtækjum. Var ríkissjóður þannig í einnig svipan orðinn stór hluthafi í fyrirtækjum í ýmis konar rekstri. Spannaði eignasafnið allt frá eignarhaldsfélögum og fjárfestingasjóðum til ferðaþjónustu og lyfjasölu. Utan um eignirnar var stofnað félagið Lindarhvoll ehf. og fékk hið nýstofnaða félag það verkefni að „ … annast umsýslu, fullnustu og sölu eignanna…“. 

Frá upphafi var lagt upp með að eignirnar yrðu nýttar til niðurgreiðslu skulda. Til þess að svo gæti orðið varð bæði að koma þeim í verð og fylgja því eftir að fjármunirnir rynnu sannarlega ekki til annarra verkefna. Það er engan veginn sjálfgefið þegar slíkar eignir renna í ríkissjóð. Því ber að halda til haga og fagna sérstaklega. Það er því hvorki meira né minna en stórkostlegt að nú á dögunum, tæplega tveimur árum eftir stofnun Lindarhvols, hafi verið tilkynnt um að verkefninu sé lokið og starfsemi félagsins því sjálfhætt. Svona eiga sýslumenn að vera!

Áætlað er að virði þeirra eigna sem runnu inn í Lindarhvol verði í árslok orðið 458 milljarðar króna. Hefur virði eignanna því vaxið um 74 milljarða á aðeins tveimur árum. Það eru gríðarlegir fjármunir í öllu samhengi. Til samanburðar er það áþekk fjárhæð og áætlað er að margumrædd borgarlína gæti kostað þegar hún verður tilbúin árið 2040 og töluvert meira en 65 ma.kr. framlag ríkissjóðs til Landspítalans á þessu ári. Munar um minna og munu Íslendingar njóta þess til frambúðar í lægri vaxtagreiðslum og minna skuldsettum ríkissjóði.

Það er rétt að hrósa stjórnvöldum fyrir staðfestu við úrlausn þessa verkefnis. Loforð um niðurgreiðslu skulda hefur til þessa staðið eins og stafur á bók, en af þeim 204 ma.kr. sem búið er að ráðstafa hefur 170 ma.kr. þegar verið varið til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs og lækkunar lífeyrisskuldbindinga. Þeir sem komu að málinu eiga að vera stoltir af sínu verki og er nú mikilvægt sem aldrei fyrr að hvergi verið hvikað frá fyrri stefnu við ráðstöfun þeirra 250 ma.kr. sem eftir standa. Skuldir ríkissjóðs eru enn mun meiri en þær voru fyrir hrun bankakerfisins og eina ábyrga stefnan er að nota einskiptistekjur sem þessar til þess að draga úr skuldum ríkissjóðs og styrkja þannig stöðu okkar sameiginlegu sjóða til framtíðar. Meira af þessum toga.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2018.