Efnahagsmál - 

04. Maí 2006

Krónan í samkeppni við veðrið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Krónan í samkeppni við veðrið

Íslenska krónan er nú í harðri samkeppni við veðrið sem umræðuefni á Íslandi. Það er að mörgu leyti skiljanlegt þar sem sveiflurnar í gengi krónunnar minna stundum á veðrabrigðin á Íslandi og það sem er breytilegt verður mönnum yfirleitt tíðræddara um en það sem aldrei hreyfist.

Íslenska krónan er nú í harðri samkeppni við veðrið sem umræðuefni á Íslandi. Það er að mörgu leyti skiljanlegt þar sem sveiflurnar í gengi krónunnar minna stundum á veðrabrigðin á Íslandi og það sem er breytilegt verður mönnum yfirleitt tíðræddara um en það sem aldrei hreyfist.

Þegar fall íslensku krónunnar er metið má halda því fram að gengi hennar hafi risið of hátt á tímabili og að það hafi flýtt fyrir lækkun hennar. Lækkunin kom þó meira fram á þessum tímapunkti sem viðbrögð frá fjármálamarkaði í kjölfar illa grundaðrar umfjöllunar erlendis um íslenskt efnahags- og atvinnulíf fremur en að íslensk fyrirtæki væru á barmi gjaldþrots, þótt hágengið hefði vissulega þrengt verulega að fyrirtækjum í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Lærdómurinn sem af þessu má draga er að standa verður miklu betur og skipulegar að upplýsingagjöf um íslenskt efnahagslíf erlendis en gert hefur verið og er þá alls ekki verið að gera lítið úr þeirri vinnu sem unnin hefur verið á þessu sviði.

Hagstjórnartæki gegn sveiflum

Almennt séð er kosturinn við að halda krónunni sem sjálfstæðum gjaldmiðli sá að með henni hefur hagkerfið fleiri tæki til þess að aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Þá er bæði hægt að beita hagstjórnaraðgerðum á sviði peningamála og opinberra fjármála. Ókosturinn er hins vegar sá að gengissveiflurnar geta verið miklar og þær skapa vissulega erfiðleika fyrir fyrirtæki og aðra sem þurfa að bregðast við þeim.  Sá ávinningur sem sjálfstæður gjaldmiðill býður upp á hvílir hins vegar á þeirri forsendu að verðlag haldist stöðugt. Ef ekki tekst að halda verðbólgunni niðri, m.a. vegna þess að krónan nýtur ekki trausts, þá verður evran meira aðlaðandi kostur en ella.

Kosturinn við sameiginlega mynt er einkum sá að stöðugleiki ríkir gagnvart myntsvæðinu og viðskiptum innan þess, sem hefur því meiri þýðingu sem það myntsvæði er mikilvægara viðskiptasvæði. Ókosturinn er hins vegar sá að byrðin af hagstjórninni fellur öll á ríkisfjármálin og vinnumarkaðurinn aðlagast breyttum aðstæðum miklu fremur með breytingum á atvinnustigi fremur en kaupmáttarbreytingum. Almennt má gera ráð fyrir meira atvinnuleysi með sameiginlegri mynt en sjálfstæðum gjaldmiðli, einkum ef hagsveiflur einstakra aðildarríkja eru ekki í takt.

Það er ekki hægt að sanna það í eitt skipti fyrir öll hvort sjálfstæður gjaldmiðill er hagstæðari fyrir Ísland en sameiginleg mynt sem yrði þá evran. Ástæðan er sú að aðstæður eru sífellt að breytast og það þarf að gera mismunandi hluti til þess að ná árangri eftir því hvort fyrirkomulagið er valið. Það er líka hægt að klúðra hagstjórn óháð fyrirkomulagi gjaldmiðilsins.

Ákvörðun um sjálfstæðan gjaldmiðil er því ekki eingöngu efnahagslegt mál heldur líka pólitískt. Við hvort fyrirkomulagið hafa menn meiri trú á árangursríkri hagstjórn? Svo koma líka inn þættir eins og vilji til þess að tengjast betur aðildarlöndum myntsvæðisins í pólitískum eða menningarlegum tilgangi, en þeir þættir réðu afar miklu þegar evran var upphaflega sett á laggirnar.

Skortur á aðhaldi hjá ríki

Umræður um íslensku krónuna og stöðu hennar eru afar nauðsynlegar. Ekki síst vegna þess að þær vekja upp spurningar um hvernig haga þarf hagstjórn til þess að ná árangri og það skapar aðhald að ríkisstjórn og Seðlabanka. Meðan krónan er við lýði er nauðsynlegt að gera það sem þarf til þess að fullur árangur náist. Samtök atvinnulífsins hafa á undaförnum misserum bent á að of mikil byrði af hagstjórninni hafi fallið á Seðlabankann en að ríkið hafi ekki tekið á málum með réttum hætti t.d. með ónógu aðhaldi og óheppilegum aðgerðum Íbúðalánasjóðs á fasteignamarkaðnum.

Framundan er erfitt verkefni á vinnumarkaðnum sem snýst kannski ekki síst um það hvernig hann aðlagast að breyttum aðstæðum. Þá skiptir máli að nálgast það verkefni út frá því hvernig hægt er að stuðla að sem mestum árangri til framtíðar.  

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins