Kröfur á forsendum fortíðarinnar
Á háskólahátíð á dögunum ræddi Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, hugmyndir um að taka upp skólagjöld við HÍ. Þetta var tímabært og gott framtak hjá rektor, en umræðan sem víða hefur farið fram í kjölfarið - krafan um gjaldfrjálst háskólanám - er því miður byggð á forsendum fortíðarinnar.
Gjaldfrelsi ekki lengur raunhæft
Háskólanám er ekki lengur bundið við fáeinar deildir
embættismannanáms, með skýrt skilgreint upphaf og endi. Gríðarleg
aukning hefur orðið á aðsókn í háskólanám, sem er þjóðfélagslega
mjög jákvæð þróun, en hlutfall háskólamenntaðra hefur lengi verið
með lægra móti á íslenskum vinnumarkaði. Núorðið er fólk í
sívaxandi mæli að hverfa til náms á ýmsum tímum ævi sinnar, ýmist
til að afla sér frekari þekkingar sem eykur verðmæti þess á
vinnumarkaði, eða til frekari lífsfyllingar. Möguleikarnir á að
bjóða upp á nýja valkosti eru óþrjótandi og eftirspurnin endalaus.
Hugmyndin um gjaldfrelsi er því ekki lengur raunhæf.
Aukið verðmæti fólks á vinnumarkaði
Heimurinn er sífellt að minnka og háskólafólk hefur æ betri
möguleika til hálaunastarfa í mörgum löndum. Ekkert er eðlilegra en
að nemendur taki sjálfir einhvern þátt í þeim beina kostnaði sem
háskólanám þeirra felur í sér og nýtist þeim á alþjóðlegum
vinnumarkaði. Það er í raun óskammfeilni af stúdentum við
ríkisrekna háskóla að vilja ekki taka neinn þátt í beinum kostnaði
við eigið nám, sem auka mun verðmæti þeirra á vinnumarkaði, en láta
samfélagið bera allan þann kostnað. Er það eðlileg
kostnaðarskipting á milli þeirra og skattgreiðenda - þar á meðal
láglaunafólks?
Fáránleikinn alger
Hvað með þá sem vilja sækja sér annað nám en háskólanám? Ef
verkamaður hyggst verða sér úti um réttindi til að aka vörubifreið
getur hann þurft að reiða fram um 100.000 krónur. Hafi hann áunnið
sér réttindi í starfsmenntasjóð stéttarfélags fær hann e.t.v. um
30.000 króna styrk þaðan, en þarf að greiða afganginn sjálfur.
Stúdentar við HÍ greiða hins vegar einungis kr. 32.500 í
skráningargjöld fyrir hvern vetur. Sex eftirmiðdaga námskeið í
lífsleikni við Endurmenntun HÍ kostar kr. 43.000. Fimm morgna
námskeið í stjórnun kr. 35.000. Lærir fólk meira þarna en á heilum
vetri í t.d. meistaranámi við HÍ?
Þegar svo þessi skráningargjöld við HÍ eru sett í samhengi við leikskólagjöldin, eins og stundum er gert, verður fáránleikinn alger. Láglaunafólk þarf, eins og allir aðrir, að greiða hátt á fjórða hundrað þúsunda króna á ári fyrir barn á leikskóla. Samt virðist fólki alvara með það að sífellt fjölbreyttara nám við háskóla, sem eigi að gefa af sér há laun, verði að vera algerlega gjaldfrjálst! "Sniðugt á Íslandi" myndu þeir líklega segja hinir geðþekku erlendu verkamenn í Spaugstofunni.
Skólagjöld: meiri kröfur og styttri
námstími
Aðsókn að Háskólanum í Reykjavík og Viðskiptaháskólanum á Bifröst
hefur verið gríðarleg, þrátt fyrir að þar þurfi nemendur að greiða
skólagjöld. Gjöldin eru lánshæf hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna
og hindra því engan í að stunda nám. Nemendur við þessa skóla gera
eðli málsins samkvæmt miklar kröfur, sem og kennarar og
stjórnendur. Það sama gildir vonandi í flestum tilfellum einnig um
ríkisháskólana, en skólagjöldin fela hins vegar óneitanlega í sér
aukinn hvata. Þá er athyglisvert að í nýlegri skýrslu um íslensk
efnahagsmál bendir OECD á að lítil kostnaðarþátttaka nemenda
virðist vera helsta ástæða fremur langs námstíma íslenskra
háskólanema.
Stjórnunarréttur og uppbygging
skólakerfisins
Innheimta skólagjalda gefur kost á meiri sjálfstýringu í
uppbyggingu skólakerfisins og tryggir ákveðin tengsl hennar við þá
eftirspurn sem til staðar er. Þá tengist umræðan um skólagjöld
umræðunni um rekstrarform, en ein helstu rökin fyrir breyttu
rekstrarformi ríkisháskóla eru þau að auka þarf stjórnunarrétt og
svigrúm stjórnenda í skólum sem nú eru í opinberum rekstri. Samtök
atvinnulífsins hafa þær upplýsingar beint frá stjórnendum við
fleiri en einn ríkisháskóla að fyrir þá sé afar brýnt að losna
undan hamlandi og ósveigjanlegu lagaumhverfi hins opinbera
vinnumarkaðar. Þeir kvarta m.a. undan því að of erfitt sé að segja
upp fólki, en háskólar og einstakar deildir innan þeirra verða að
geta brugðist skjótt við breyttum aðstæðum. Breyttu rekstrarformi
gæti jafnframt fylgt aukið fjárhagslegt sjálfstæði og eðlilegra
samkeppnisumhverfi.
Góð fjárfesting
Háskólamenntun er fjárfesting. Öflugt menntakerfi er hagsmunamál
einstaklinga, fyrirtækja og þjóðfélagsins alls. Það er hins vegar
ekkert eðlilegra en að stúdentar taki sjálfir einhvern þátt í þeim
beina kostnaði sem háskólanám þeirra felur í sér og nýtist þeim á
alþjóðlegum vinnumarkaði. Þar fyrir utan veita skólagjöld aukið
aðhald og stuðla þannig að auknum kröfum, auk þess að gefa kost á
meiri sjálfstýringu í uppbyggingu skólakerfisins sem tryggir tengsl
hennar við þá eftirspurn sem til staðar er. Krafan um gjaldfrjálst
háskólanám er hins vegar ekki í neinu sambandi við það umhverfi
óþrjótandi eftirspurnar sem þróast hefur og fagna ber. Slík krafa
byggir þvert á móti á forsendum fortíðarinnar.
Ari Edwald