Kostnaður foreldra og atvinnulífs vegna skipulagsdaga í leikskólum margfalt meiri en sparnaður sveitarfélaga

Á undanförnum árum hefur skipulagsdögum í leikskólum farið fjölgandi. Stærstu sveitarfélögin tilkynntu foreldrum nýlega að þeim yrði fjölgað úr 5 í 6 á þessu ári. Sveitarfélögin hafa farið þá leið að loka fyrir þjónustu leikskólanna á þessum dögum, væntanlega í sparnaðarskyni, en áður var algengt að skipulagsfundir starfsmanna í leikskólum væru haldnir utan vinnutíma og starfsmönnum greidd yfirvinna fyrir fundartímann. Það er því ákvörðun sveitarfélaganna að skerða þann þjónustutíma sem foreldrum stendur til boða vegna þessarar skipulagsvinnu.

Á landinu starfa 274 leikskólar, þ.a. 233 á vegum sveitarfélaga og 41 er einkarekinn með rekstrarstuðningi frá sveitarfélögum. Árið 2010 námu gjöld sveitarfélaganna vegna leikskólanna 233 samtals 22,3 milljörðum króna en tekjur af leikskólagjöldum námu 3,7 milljörðum króna. Þessar upplýsingar er að finna í árbók sveitarfélaga 2011 en upplýsingar um rekstrarstuðning við einkareknu skólanna fylgir þar ekki.

Ekki er efast um mikilvægi þess að vel sé vandað til undirbúnings og skipulags leikskólastarfs. Á hinn bóginn ríkir veruleg óánægja með núverandi skipan þessara mála, bæði hjá foreldrum barna á leikskólum og í fyrstu bekkjum grunnskóla, og í atvinnulífinu. Í hnotskurn snýst málið um að sveitarfélögin hafa ákveðið að draga úr rekstrarkostnaði sínum og varpa honum yfir á foreldra og atvinnulífið. Það blasir við að þetta er þjóðhagslega mjög óhagkvæmt því sparnaður sveitarfélaganna af lokun leikskólanna á skipulagsdögunum er aðeins brot af þeim kostnaði sem foreldrar og atvinnulíf verða fyrir.

Dæmi um ávinning sveitarfélags og kostnað foreldra og atvinnulífs í meðaltals leikskóla

Hér á eftir verður lagt lauslegt mat á sparnað sveitarfélaganna við það að hafa skipulagsvinnuna ekki utan vinnutíma og kostnað foreldra og atvinnulífs vegna núverandi fyrirkomulags skipulagsdaga í einföldu dæmi.

Árið 2010 störfuðu að meðaltali 17 starfsmenn í hverjum leikskóla landsins. Ætla má að hluti starfsliðs taki ekki þátt í skipulagsstarfi, t.d. starfsfólk í mötuneytum og ræstingu, þannig að gera má ráð fyrir að 15 starfsmenn taki þátt í því. Yfirvinnutímatímakaup þessara 15 starfsmanna er áætlað 3.000 kr. að meðaltali (dagvinnulaun um 300.000 kr. á mánuði). Sveitarfélagið sparar sér því rúmar tvær milljónir króna á ári með því að loka leikskólanum í sex daga í stað þess að greiða 48 stundir í yfirvinnu vegna skipulagsstarfsins. ( 6 dagar sinnum 8 stundir í yfirvinnu sinnum 15 starfsmenn sinnum 3.000 kr. yfirvinnutímakaup = 2.160.000 kr.)

Árið 2010 voru að meðaltali 67 börn í heilsdagsvistun í hverjum leikskóla landsins og er gert ráð fyrir að eitt foreldri sé pr. barn. Þá má gera ráð fyrir að meðaltals mánaðarlaun foreldra séu jöfn meðallaunum fyrir dagvinnu skv. launarannsókn Hagstofunnar, sem voru 400.000 kr. á mánuði árið 2011. Þá fæst að laun foreldra á þessum dögum, þ.e. verðmæti þeirra orlofsdaga sem þeir þvingast til að taka, séu 7,4 milljónir króna ( 6 dagar sinnum 8 stundir í dagvinnu sinnum 67 foreldrar sinnum 2.300 kr. dagvinnutímakaup = 7.396.800 kr.). Þá er kostnaður atvinnulífsins af minni framleiðslu- eða þjónustutekjum ótalinn en sé gert ráð fyrir að foreldrar starfi allir í starfsgreinum sem selja út vinnu starfsmanna á tímagrundvelli, t.d. hárgreiðslu- eða rafvirkjastörf eða störf á verkfræði- og arkitektastofum, þá er ekki óvarlegt að ætla að útselt tímagjald í þessum greinum þreföld dagvinnulaun viðkomandi starfsmanna. Framlegð fyrirtækjanna minnkar því með minna vinnuframlagi starfsmanna vegna skipulagsdaganna. Foreldrar leysa þau vandamál sem skipulagsdagarnir valda þeim með ýmsum hætti en ljóst er að þeir draga úr vinnuframboði þeirra, og þar með framleiðslu og þjónustuframboði atvinnulífsins, og er tekjutap atvinnulífsins að lágmarki jafn mikið og nemur kostnaði starfsmanna. Sé byggt á þeirri forsendu er kostnaður foreldra og atvinnulífs vegna skipulagsdaganna samtals 14,8 milljónir króna. Sparnaður sveitarfélaganna er rúmar tvær milljónir króna þannig að kostnaður foreldra og atvinnulífs er sjöfalt hærri en sparnaður sveitarfélaganna í þessu dæmi.

Í þeirri umræðu sem fór fram í kjölfar pistils um skipulagsdagana á vef SA þann 29.4 hafa talsmenn leikskólakennara lýst þeirri skoðun að atvinnulífið ætti að koma til móts við foreldra vegna þessara daga og væntanlega gefa þeim sex auka frídaga. Reikningsdæmið vegna þessarar hugmyndar er einfalt. Kostnaði af skipulagsdögunum yrði alfarið varpað yfir á atvinnulífið. Miðað við ofangreindar forsendur um laun og útselda vinnu yrði kostnaður atvinnulífsins 22 m.kr. vegna skipulagsdaga á hvern leikskóla að meðaltali.

Leikskólarnir eru 274 eins og fyrr sagði. Sveitarfélögin í heild spara sér u.þ.b. 600 m.kr. á ári með því að hafa skipulagsdagana á dagvinnutímabili og loka leikskólunum í stað þess að láta þetta starf fara fram utan vinnutíma og greiða yfirvinnu fyrir það. Foreldrar og atvinnulíf verða fyrir sjöfalt hærri kostnaði eða sem nemur fjórum milljörðum króna á ári. Yrðu hugmyndir talsmanna leikskólakennara að veruleika yrði heildarkostnaður atvinnulífsins en hærri og mætti ætla að hann yrði tífalt meiri en sparnaður sveitarfélaganna af núverandi fyrirkomulagi skipulagsdaga.

Tengt efni:

Skipulagsdagar leikskóla - bera þjónustulund ekki fagurt vitni