Kosning formanns Samtaka atvinnulífsins stendur yfir

Rafræn kosning formanns Samtaka atvinnulífsins fyrir starfsárið 2015-2016 stendur nú yfir meðal aðildarfyrirtækja samtakanna. Björgólfur Jóhannsson, formaður SA og forstjóri Icelandair Group, gefur áfram kost á sér en hann tók við formennsku í Samtökum atvinnulífsins árið 2013. Félagsmenn SA hafa fengið send lykilorð í pósti til að taka þátt í formannskjörinu. Hægt er að kjósa til kl.9.30 fimmtudaginn 16. apríl en aðalfundur SA 2015 hefst í Húsi atvinnulífsins kl. 11.30 sama dag. Kjörgengir til embættis formanns SA eru stjórnendur og stjórnarmenn aðildarfyrirtækja og aðildarfélaga samtakanna.

Félagsmenn SA geta kosið hér í formannskjörinu

Ársfundur atvinnulífsins 2015 fer fram í Hörpu að afloknum aðalfundi SA og hefst opin dagskrá kl. 14 og stendur til kl. 16. Yfirskrift fundarins er Gerum betur. Þar munu SA benda á leiðir til að gera Ísland að betri stað til að búa á, starfa og reka fyrirtæki. 

Sérstakur gestur fundarins er Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sem mun fjalla um reynslu Svía af sambærilegum viðfangsefnum og Íslendingar kljást nú við á sviði vinnumarkaðar og efnahagsmála. Formaður SA ávarpar fundinn og einnig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.

Fjölbreyttur hópur stjórnenda stígur einnig á stokk og fjallar um hvað megi gera betur í atvinnulífinu. Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, Oddur Steinarsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Hulda Sigríður Hreggviðsdóttir, sem stýrir rannsóknum og þróun hjá Zymetech og Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins og formaður SAF. Fundarstjóri er Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. 

Mikill áhugi er á ársfundinum og vissara að tryggja sér sæti tímanlega. 

Skráning hér

undefined