Kosning formanns Samtaka atvinnulífsins er hafin

Rafræn kosning formanns Samtaka atvinnulífsins er hafin meðal aðildarfyrirtækja samtakanna. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, gefur áfram kost á sér í embætti formanns SA en Björgólfur var kjörinn formaður samtakanna 6. mars 2013. Kjörgengir til embættis formanns SA eru stjórnendur og stjórnarmenn aðildarfyrirtækja og aðildarfélaga samtakanna.

Björgólfur Jóhannsson formaður SA á aðalfundi SA 2013

Félagsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa fengið send lykilorð í pósti til að taka þátt í formannskjörinu. Tilkynnt verður um úrslit á aðalfundi SA þann 3. apríl nk. Fundurinn fer fram í Hörpu og hefur aðalfundarfundarboð verið sent til félagsmanna en síðar sama dag fer fram Ársfundur Samtaka atvinnulífsins 2014 sem er öllum opinn. Ársfundurinn fer fram í Silfurbergi í Hörpu kl. 14-16.

Á forsíðu vefs SA efst til vinstri er hnappur merktur Formannskjör. Smellt er á hnappinn til að komast inn á sérstakan kosningarvef. Þar nálgast félagsmenn kjörseðil sinn með hjálp lykilorðsins.

Rafrænni kosningu lýkur kl. 11:00 á aðalfundardag þann 3. apríl 2014.

Nánari upplýsingar um kosningu formanns SA má fá á skrifstofu SA í síma 59 10 000 eða með því að senda tölvupóst á sa@sa.is.

Kosningakerfið er hannað af fyrirtækinu Outcome hugbúnaði ehf. og er umsjón formannskjörsins hjá þeim. Atkvæði kjósenda verða ekki rakin og kosningin því leynileg.

Samtök atvinnulífsins eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs með sjö aðildarfélögum sem byggja á ólíkum atvinnugreinum. Yfir 2.000 fyrirtæki í fjölbreyttum greinum eiga aðild að Samtökum atvinnulífsins, allt frá sjálfstætt starfandi frumkvöðlum til stærstu fyrirtækja landsins. Hjá aðildarfyrirtækjum SA starfa um 70% launafólks á almennum vinnumarkaði.