Kornið sem fyllti mælinn - Stöðugleikasáttmálanum slitið

Á fundi stjórnar SA í gær var samþykkt samhljóða að ríkisstjórnin hafi bæði með aðgerðum sínum og aðgerðaleysi á þeim níu mánuðum sem liðnir eru frá undirritun stöðugleikasáttmálans vísað SA  frá sáttmálanum. Verulegur brestur hafi orðið af hálfu ríkisstjórnarinnar við efndir  fyrirheita sáttmálans. Skattar hafi verið hækkaðir umfram það sem gert var ráð fyrir og ýmsar aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu hafi ekki gengið eftir.

Traust milli aðila hefur brostið

Þann 25. júní 2009 var stöðugleikasáttmálinn undirritaður en aðild að honum áttu SA, ASÍ, SSF, stéttarfélög opinberra starfsmanna, Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórnin. Samhliða honum voru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði framlengdir til nóvember 2010. Þrátt fyrir fögur fyrirheit hafa aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar lagt grunn að því að framlengja kreppuna, viðhalda atvinnuleysi og draga úr líkum á því að Íslendingar muni á næstu árum ná fyrri velferð og lífskjörum.

Traust milli SA og ríkisstjórnarinnar hefur brostið. Kornið sem fyllti mælinn er frumvarp um breytingar á stjórn fiskveiða sem samþykkt var á Alþingi í gær. Þar er heimiluð veiði nytjastofns allt að 80% (2.000 tonn) umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.  Af  hálfu SA var sá fyrirvari gerður við undirritun sáttmálans að málefni er tengjast stjórn fiskveiða  yrðu  í þeim sáttafarvegi sem samkomulag var um.

Aðgerðaleysi í atvinnumálum

Ítrekað hefur verið unnið gegn nýjum verkefnum á sviði orkuvinnslu og -nýtingar. Þar má nefna drátt á staðfestingu umhverfismats suðvesturlínu, höfnun á skipulagi hreppa við Neðri- Þjórsá, óraunhæfar hugmyndir um skattheimtu á orkufrekan iðnað, langdregna óvissu um heimild til erlends eignarhalds á HS Orku og fráhvarf samstarfs við Alcoa um uppbyggingu við Bakka.  Stór verkefni til atvinnusköpunar á borð við einkarekin sjúkrahús hafa mætt andstöðu ríkisstjórnarinnar.

Seinagangur í of mörgum málum

SA og ASÍ hafa undanfarin ár unnið að uppbyggingu starfsendurhæfingar. Ríkisstjórnin skuldbatt sig til þess í stöðugleikasáttmálanum að lögbinda framlög og iðgjöld til Starfsendurhæfingarsjóðs. Enn bólar ekkert á efndum þessa.

Vextir hafa lækkað mun hægar en vonast var til og vaxtamunur milli Íslands og nálægra landa er allt of hár og dregur úr vilja, getu og frumkvæði fyrirtækja til fjárfestinga og sköpunar starfa. Gjaldeyrishöftin eru enn við lýði og engar breytingar fyrirsjáanlegar á þeim í náinni framtíð. Höftin valda ómældum skaða og koma m.a. í veg fyrir að fyrirtæki geti endurfjármagnað lán sín og vekja efasemdir erlendra fjárfesta um að hér sé rekið hagkerfi að vestrænni fyrirmynd.

Ákvörðun stjórnar SA kemur ekki á óvart

Í bréfi til forsætisráðherra þann 22. febrúar sl. lýstu SA yfir miklum áhyggjum vegna framgangs stöðugleikasáttmálans. Þar var því jafnframt lýst að SA teldu upplausn sáttmálans mjög óæskilega því að samstaða stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins hefði mikla þýðingu.

Nú er hins vegar svo komið að vanefndir á þeim fyrirheitum og markmiðum sem skrifuð voru í sáttmálann og undirrituð af ríkisstjórn Íslands eru slík að ekki verður lengur við unað.

Fréttatilkynning SA sem kynnt var á blaðamannafundi í Húsi atvinnulífsins 23. mars kl. 14:00.

Yfirlit yfir efndir og vanefndir stöðugleikasáttmálans má nálgast hér að neðan ásamt bréfum SA til Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra dags. 22. febrúar 2010 og 22. mars 2010.

Fylgiskjöl:

Efndir og vanefndir fyrirheita í stöðugleikasáttmála.

Bréf SA til forsætisráðherra dags. 22. febrúar 2010.

Bréf SA til forsætisráðherra dags 22. mars 2010.