Konur 31% stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri

Samkvæmt nýrri úttekt Creditinfo sem unnin var fyrir Samtök atvinnulífsins taka lög um kynjakvóta í stjórnum til 287 fyrirtækja um þessar mundir. Í árslok 2013 voru konur 31% stjórnarmanna og karlar 69% í þessum fyrirtækjum. Árið 2009 var hlutfall kvenna 20% í stjórnum fyrirtækja með a.m.k. 50 heilsárstarfsmenn og hlutfall karla 80%. Rúmlega helmingur þessara fyrirtækja uppfylla skilyrði laganna um kynjahlutföll.

Ákvæðið um kynjakvóta í stjórnum nær til hlutafélaga og einkahlutafélaga þar sem starfa 50 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli. Í þriggja manna stjórnum skal hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn og þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skal hlutfall hvors kyns ekki vera lægra en 40%. Ákvæðið öðlaðist gildi 1. september 2013.

Smelltu til að stækka!

Í maí 2009 skrifuðu Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnulífinu og Viðskiptaráð undir samstarfssamning um að fjölga konum í forystu íslensks atvinnulífs. Markmið var sett um að hlutfall hvors kyns yrði ekki undir 40% í lok árs 2013. Í raun reyndi aldrei á framkvæmd samkomulagsins því þegar á sama ári var ljóst að vilji var fyrir því á Alþingi að setja kynjakvóta á stjórnir fyrirtækja, óháð því hvort atvinnulífið sjálft gæti jafnað kynjahlutföll án opinberrar íhlutunar með því að hvetja fyrirtæki til að auka fjölbreytni í stjórnum fyrirtækja. Í mars 2010 samþykkti Alþingi svo ákvæði um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja með breytingu á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Krafa löggjafans til atvinnulífsins var skýr, en með lagasetningunni færðu stjórnvöld ábyrgðina af atvinnulífinu til sín varðandi kynningu og innleiðingu lagaákvæðisins.

Í frétt á vef SA 6. september 2012 kom fram að í árslok 2011 hafi fyrirtæki með a.m.k. 50 heilsársstarfsmenn og lífeyrissjóðir verið 321 og þar af hafi 152, eða 47%, uppfyllt skilyrði laganna um kynjakvóta. Heildarhlutfall kvenna í stjórnum hafi verið 21% og að um 200 konur vantaði í þessar stjórnir.

Hlutfall kvenna í stjórnum þessara fyrirtækja var þannig nánast óbreytt milli áranna 2009 og 2011, eða 20-21%. Milli áranna 2011 og 2013 hækkaði hlutfallið úr 21% í 31%. Samkvæmt því þarf konum að fjölga um 100 í stjórnum þessara fyrirtækja, og körlum að fækka samsvarandi, á aðalfundum félaga sem lögin taka til svo lagaákvæði um kynjakvóta verði uppfyllt.

Í september 2011 setti Alþingi sambærileg ákvæði um kynjakvóta inn í lögin um lífeyrissjóðina. Kynjahlutföll í upphafi ársins 2014 eru þannig að af 141 stjórnarmanni eru 66 konur, eða 47%.

Smelltu til að stækka!

Samtök atvinnulífsins hafa á undanförnum misserum unnið markvisst að því að jafna kynjahlutföll fulltrúa SA í stjórnum lífeyrissjóða. Af 27 aðalmönnum sem SA skipa í stjórnir níu sjóða eru nú 15 konur en 12 karlar. Að loknum aðalfundum sjóðanna árið 2012 skipuðu konur 46% sæta sem SA skipuðu. Í október 2013 var hlutfallið orðið 56%.

Markmiðið náist á þessu ári
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Vísi ljóst að miðað hafi talsvert í rétta átt  þó svo að enn vanti nokkuð upp á til að hinu lögbundna 40 prósenta markmiði verði náð.

"Við fórum í þessa athugun af tveimur ástæðum. Annars vegar með hliðsjón af samningi okkar við Viðskiptaráð og Félag kvenna í atvinnulífinu frá árinu 2009 sem fól í sér markmið um að hlutfall hvors kyns yrði ekki undir 40% í lok árs 2013. Hins vegar vildum við vekja athygli á þessu í aðdraganda aðalfunda fyrirtækja sem eru framundan. Við bindum vonir við að verða komin yfir 40% markmiðið á þessu ári," segir Þorsteinn.