Kolefnisgjald verði ekki varanlegt

Frumvarp um nýja umhverfis- og auðlindaskatta gerir ráð fyrir að skattur á rafmagn og heitt vatn verði tímabundinn til þriggja ára en kolefnisgjald á fljótandi jarðefnaeldsneyti verði varanlegt. Miðað við þær upplýsingar sem Samtök atvinnulífsins hafa fengið frá stjórnvöldum verður að ætla að hið síðarnefnda feli í sér mistök. Með hliðsjón af skaðsemi þessarar nýju skattlagningar fyrir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja sem og af því að skattformið sem slíkt getur ekki talist viðunandi til langframa, geta Samtök atvinnulífsins með engu móti fallist á að kolefnisskattur samkvæmt frumvarpinu verði lögfestur ótímabundið og telja að alls ekki verði lengra gengið en svo að frumvarpið í heild gildi aðeins til eins árs.

Í umsögn SA um málið kemur fram að í fyrsta kafla frumvarpsins er lagt til að tekinn verði upp nýr skattur í formi kolefnisgjalds á fljótandi jarðefnaeldsneyti, þ.e. bensín, dísilolíu, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu, að fjárhæð 2,60-3.70 kr. á hvern lítra. Er áætlað að kolefnisgjaldið muni skila rúmlega 2,5 milljörðum króna í ríkissjóð árlega. Í öðrum kafla er lagt til að tekinn verði upp nýr skattur á selda raforku, 0,12 kr. á hverja kílówattstund, og af heitu vatni, sem nemi 2% af smásöluverði á heitu vatni. Annar kafli frumvarpsins er tímabundinn og fellur úr gildi í árslok 2012. Áætlaðar árlegar tekjur af skatti á raforku nema tæplega 2 milljörðum króna og af heitu vatni um 200 milljónum króna. Í heild er áætlað að árlegar tekjur af þessum nýju sköttum nemi því um 5,5 milljörðum króna.

Rétt er að benda á að í Noregi eru fiskiskipaflotinn, kaupaskipaútgerðir og flugrekstur undanþegin kolefnisskatti beint eða með endurgreiðslum. Frumvarpið mun því að óbreyttu skerða alvarlega samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í þessum atvinnugreinum sem mörg eiga í harðri samkeppni við norska keppinauta. Sérstaklega skal bent á að flutningskostnaður er einn helsti liður sem íslensk fyrirtæki bera umfram helstu erlenda keppinauta. Má sem dæmi nefna að flutningskostnaður norskra fyrirtækja frá Noregi til Parísar er 30-50 kr/kg með flutningabíl, en flutningskostnaður íslenskra fyrirtækja er frakt í skipti 30-50 kr/kg eða 230-250 kr/kg með flugi, að viðbættum flutningsliðum innanlands. Kolefnisskatturinn mun því raska verulega samkeppnisstöðu m.a. íslenskra útflutningsfyrirtækja og minnka getu þeirra til að mæta auknum launakröfum næstu ára. Verða stjórnvöld að átta sig á að íslensk útflutningsfyrirtæki geta ekki tekið á sig meiri skattbyrðar en erlendir samkeppnisaðilar búa við.

Samtök atvinnulífsins hafa bent ríkisstjórninni á að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010 eru settar fram tillögur um skattahækkanir sem eru umfram það sem gert var ráð fyrir við gerð stöðugleikasáttmála í lok júní og umfram greiðslugetu heimila og fyrirtækja. Einn alvarlegasti bresturinn sem orðið hefur í efnahagslífinu er að fjárfesting í atvinnulífinu hefur hrunið. Með stöðugleikasáttmálanum var leitast við að skapa skilyrði fyrir aukinni fjárfestingu innlendra sem erlendra aðila, auknum hagvexti, nýrri sókn í atvinnumálum og að grunnur yrði lagður að bættum lífskjörum til framtíðar. Í því sambandi ber sérstaklega að varast að leggja auknar skattbyrðar á minnkandi skattstofna og eru skattar sem draga úr vilja og getu til fjárfestinga sérstaklega varhugaverðir sem og aukin skattbyrði og háir jaðarskattar sem draga úr verðmætasköpun fyrirtækja og möguleikum starfsfólks til bættra lífskjara.

Samtök atvinnulífsins vona að fjárfestingaráform erlendra aðila á Íslandi muni þrátt fyrir nýja umhverfis- og auðlindaskatta ganga eftir en lykillinn að endurreisn íslensks atvinnulífs er fólginn í erlendri fjárfestingu.

Sjá nánar:

Umsögn SA um frumvarp til laga um umhverfis- og auðlindaskatta, 257. mál