Klókt að auka fjölbreytni í atvinnulífinu

Auka má fjölbreytni verulega í íslensku atvinnulífi og á tímum þegar blæs á móti eiga stjórnendur að nýta tækifærið til að taka til í rekstrinum - leita nýrra leiða til aukinnar hagsældar. Það er klókt að auka nú fjölbreytni í stjórnum fyrirtækja og í stjórnunarstöðum. Þetta sagði Þór Sigfússon, formaður SA, á afmælisráðstefnu Háskólans á Bifröst í dag sem fram fór í Salnum í Kópavogi. Hann hvatti til þess að á næstu 18 mánuðum yrði gert átak til að auka fjölbreytni þannig að fjölbreytni í viðhorfum, aldri og kyni fái notið sín í íslensku atvinnulífi.

Erlendar rannsóknir hafa sýnt að fyrirtæki tapi á einsleitni en fjölbreytni í rekstri skili betri afkomu. Þór sagði að framsækin fyrirtæki hafi áttað sig á því að fjölbreytt starfslið með ólíkan bakgrunn skili auknum hagnaði og hjálpi þeim að laða til sín hæft fólk sem tryggir fyrirtækjunum aukna samkeppnishæfni til lengri tíma. Fjölbreytni í rekstri fyrirtækja geti skilað alvöru peningum.

Þór sagði m.a.: Enn er starfaskipting á vinnumarkaði mjög kynbundin og því þarf að breyta en fyrirtæki og stofnanir landsins geta ekki leyft sér að nýta ekki til fulls reynslu og menntun kvenna. Þrátt fyrir að konur séu tiltölulega fáar í stjórnendastöðum stærstu fyrirtækjanna eru þær um helmingur sérfræðinga og meirihluti sérmenntaðs starfsfólks. Um 60% háskólanema á Íslandi eru konur. Menntun og nýsköpun er forsenda aukinnar hagsældar á Íslandi og konurnar hafa tekið forystu á menntasviðinu -það borgar sig að hafa fjölbreytnina að leiðarljósi - það er góður bissness.

Sjá nánar:

Erindi Þórs Sigfússonar (Word-skjal)