Kjarasamningar í gildi a.m.k. út árið 2007

Samkomulag hefur náðst milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Alþýðusambands Íslands og landssambanda þess hins vegar um breytingar á kjarasamningum, sem fyrir vikið verða áfram í gildi a.m.k. út árið 2007, en sumir samningar eru til lengri tíma. Uppsögn kjarasamninga verður því ekki heimil í desember 2006. Í tengslum við samkomulagið hefur ríkisstjórn Íslands sent frá sér yfirlýsingu um aðgerðir í tengslum við þessa niðurstöðu.

Verðbólgan náist niður árið 2007

Meginmarkmið samkomulags aðila vinnumarkaðarins og aðgerða ríkisstjórnarinnar er að breyta væntingum um verðbólgu á árinu 2007 þannig að á síðari hluta ársins verði verðbólga komin í takt við 2,5% verðbólguviðmið kjarasamninga og verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

Launaþróunartrygging upp á 5,5%

Samkvæmt samkomulagi forsendunefndar SA og ASÍ skal starfsmanni sem er í starfi í júlíbyrjun 2006 og starfað hefur samfellt hjá sama vinnuveitanda frá júní 2005 tryggð að lágmarki 5,5% launahækkun á þeim tíma. Hafi launahækkun starfsmanns verið minni á framangreindu tímabili skulu laun hans hækka frá 1. júlí um mismuninn á 5,5% og þeirri launahækkun sem hann naut á umræddu tímabili. Í þessu felst full og endanleg niðurstaða nefndarinnar vegna athugunar á samningsforsendum á árinu 2006.

Samningur um taxtaviðauka

Ennfremur hafa SA annars vegar og ASÍ og landssambönd þess hins vegar gert sérstakan samning um 15.000 króna taxtaviðauka, sem frá 1. júlí bætist við alla mánaðarlaunataxta gildandi kjarasamninga og sérkjarasamninga aðila. Á hann rætur sínar að rekja til kjaraþróunar hjá opinberum aðilum og stofnunum sem reknar eru fyrir almannafé á undanförnum mánuðum og misserum. Sú þróun hefur valdið því að umtalsvert misvægi hefur skapast á milli samningsbundinna launataxta á samningssviði SA og verkalýðsfélaga annars vegar og þeim sem gilda hjá hinu opinbera hins vegar, og er taxtaviðaukanum ætlað að draga úr því misvægi. Taxtaviðaukinn hefur ekki áhrif til hækkunar launa þeirra sem hafa hærri laun en sem nemur launatöxtum kjarasamninga að viðbættum taxtaviðaukanum. Loks hækka lágmarkstekjur skv. samningnum úr kr. 108.000 í kr. 123.000 frá 1. júlí 2006, og verða kr. 125.000 frá 1. janúar 2007.

Sameiginlegar tillögur um vinnumarkaðsmál

Loks hafa forystumenn SA og ASÍ undirritað sameiginlegar tillögur vegna erlendra starfsmanna, gerviverktöku, opinberra innkaupa og lögbrota í atvinnustarfsemi. SA og ASÍ leggja áherslu á að leikreglur á vinnumarkaði þurfa að vera skýrar og þeim fylgt eftir af stjórnvöldum og aðilum vinnumarkaðarins með markvissu og skilvirku eftirliti.

Hækkun skattleysismarka...

Í tengslum við samkomulag aðila vinnumarkaðins hefur ríkisstjórn Íslands sent frá sér yfirlýsingu þar sem ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til samstarfs um ákveðnar aðgerðir til að stuðla að áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði. Má þar nefna hækkun persónuafsláttar úr 29.029 krónum í kr. 32.150, endurskoðun ákvæða laga um vaxtabætur, að teknar verði upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í stað 16, aukin framlög til fullorðins- og starfsmenntamála, hækkun atvinnuleysisbóta um 15.000 krónur og samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um málefni útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, gerviverktöku o.fl.

Sjá samkomulag forsendunefndar SA og ASÍ.

Sjá samning SA annars vegar og ASÍ og landssambanda þess hins vegar um taxtaviðauka.

Sjá launatöflur með kjarasamningi SA og ASÍ 22. júní 2006.

Sjá minnisblað um markmið SA og ASÍ um hjöðnun verðbólgu og samstarfs aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda vegna samkomulags 22. júní 2006.

Sjá tillögur SA og ASÍ um vinnumarkaðsmál.

Sjá yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands.