Kennaraverkfallið olli röskun á starfi hjá 30% foreldra

Kennaraverkfallið olli talsverðri röskun á störfum foreldra grunnskólabarna skv. könnun sem IMG Gallup gerði fyrir Jafnréttisráð, en alls segja rúm 30% foreldra röskunina hafa verið mjög eða frekar mikla. Talsvert hærra hlutfall kvenna en karla varð fyrir röskun í starfi vegna verkfallsins, eða 37% á móti 27%. Munurinn er þó ekki tölfræðilega marktækur, en fjöldi svara takmarkaðist við fólk á vinnumarkaði með börn í grunnskóla.

Starfsdagar, vetrarfrí og aðrir dagar þar sem börnin sækja ekki skóla valda hins vegar almennt mun minni röskun á högum foreldra, sem kemur kannski ekki á óvart enda bæði um að ræða mun færri daga og að fyrirvarinn er oftast nokkuð langur. Rúm 11% foreldra verða þó fyrir frekar eða mjög mikilli röskun í starfi vegna þeirra. Röskunin virðist ívið meiri á störfum kvenna en karla, eða rúm 12% á móti tæplega 11%. Munurinn er þó ekki tölfræðilega marktækur, en hér takmarkaðist fjöldi svara við fólk á vinnumarkaði með börn í leik- eða grunnskóla.

Sjá nánar á vef Jafnréttisráðs