Kaupmáttur launa hefur vaxið á samningstímabilinu

Laun hafa að meðaltali hækkað um 14,0% samkvæmt launavísitölu frá upphafi 2011 til október 2012. Vísitala neysluverðs hækkaði um 10,3% á sama tímabili þannig að kaupmáttur launa var 3,4% hærri í október 2012 en í upphafi síðasta árs. Umsamdir kauptaxtar hækkuðu almennt um 12.000 kr. árið 2011 og um 11.000 kr. á árinu 2012. Lágmarkslaun hækkuðu hlutfallslega mest eða um 17% á þessum tæpu tveimur árum og kaupmáttur þeirra um 6,1%. Kaupmáttur umsaminna taxta í samningum SA og landssambanda ASÍ hefur aukist í nær öllum tilvikum.

Meginforsenda gildandi kjarasamninga er að kaupmáttur hafi aukist á samningstímabilinu. Samkvæmt samningunum þurfti kaupmáttur launa samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar að aukast bæði á árinu 2011 og 2012 til að forsendan stæðist miðað við desembergildi vísitölunnar hvort árið. Samningsaðilar skyldu fara yfir þessa og aðrar forsendur í janúar 2012 og 2013.

Kaupmáttarþróun 2011-2012
Smelltu á myndina til að stækka.


Í janúar á þessu ári lá fyrir að kaupmáttur skv. launavísitölunni hafði aukist um 3,7% milli desember 2010 og 2011 þar sem launavísitalan hækkaði um 9,2% og vísitala neysluverðs um 5,3% á því tímabili. Það flækir þennan samanburð að inn í launavísitöluna voru metin áhrif þriggja umsaminna eingreiðslna þannig að vísitalan var hækkuð aukalega um 1,8% á árinu 2011. Þegar sú hækkun er dregin frá fæst að kaupmáttur hafi aukist um 1,8% á árinu 2011. Áhrif eingreiðslnanna hafa síðan gengið til baka á þessu ári í nokkrum áföngum og haft áhrif til lækkunar vísitölunnar. Í lok þessa árs mun því launavísitalan hafa hækkað um 1,8% minna á árinu en samkvæmt mældri launaþróun.

Samkvæmt gildi launavísitölunnar í október 2012 höfðu laun hækkað um 4,45% frá desember 2011 en vísitala neysluverðs hækkaði um 3,81% á sama tímabili. Ætla má að þegar desembertölurnar liggi fyrir hafi launavísitalan hækkað á bilinu 4,6%-4,8% en vísitala neysluverðs um 4,2%-4,3%. Yfirgnæfandi líkur eru þannig á að kaupmáttarforsendan standist á þennan mælikvarða, þ.e. án þess að litið sé til áhrifa eingreiðslnanna. Þegar raunveruleg launaþróun er skoðuð er þó óhjákvæmilegt að hafa til hliðsjónar lækkun launavísitölunnar á þessu ári vegna eingreiðslnanna. Að teknu tilliti til þess má gera ráð fyrir að kaupmáttur samkvæmt launakönnun Hagstofunnar aukist um rúmlega 2% milli desember 2011 og 2012.

Þegar litið er til beggja áranna, þ.e. þróunarinnar frá upphafi síðasta árs til nýjustu gilda vísitalnanna falla metnar hækkanir vegna 50.000 kr. eingreiðslunnar og álags á orlofsuppbót í júní 2011 út. Eftir standa metin áhrif álags á desemberuppbót í desember 2011 sem falla brott í launavísitölunni í desember 2012. Þróuninni er nánar lýst í meðfylgjandi töflu.

Hækkun launa og kaupmáttar 2011-2012