24. janúar 2022

Kaupmáttur lágmarkslauna nánast þrefaldast á aldarfjórðungi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Kaupmáttur lágmarkslauna nánast þrefaldast á aldarfjórðungi

Frá árinu 2000 til 2021 jókst kaupmáttur lágmarkslauna um 86%, þ.e. kaupmáttur þessara launa hefur nær tvöfaldast á öldinni.

Kaupmáttur lágmarkslauna hefur aukist um 177% síðustu 53 ár. Nú er unnt að kaupa næstum þrefalt meira af vöru og þjónustu fyrir þessi laun en árið 1968.

Himinn og haf var á milli þróunarinnar á fyrri og seinni hluta þessa hálfrar aldar tímabils því öll aukningin átti sér stað síðasta aldarfjórðunginn.

Á tímabilinu 1968 til 1994 jókst kaupmáttur ekkert, þ.e. hann var eins árið 1994 og 1968. Á síðari hluta tímabilsins, frá 1994 til 2021, jókst kaupmáttur um 177%, þ.e. um sama hlutfall og á 53 ára tímabilinu í heild.

Á áttunda áratugnum jókst kaupmáttur launa verulega við útfærslu landhelginnar í 50 og síðan 200 mílur en gekk hratt til baka í kjölfar tveggja olíukreppna. Um miðjan níunda áratuginn reis kaupmáttur tímabundið samhliða fastgengisstefnu sem ekki fékk staðist. Á síðari hluta tíunda áratugarins skiluðu kjarasamningar miklum lífskjarabata á grundvelli lágrar verðbólgu og stöðugs gengis.

Á þessari öld hefur mikil aukning kaupmáttar launa verið með ólíkindum. Frá árinu 2000 til 2021 jókst kaupmáttur lágmarkslauna um 86%, þ.e. kaupmáttur þessara launa hefur nær tvöfaldast á öldinni.

Áhugavert er að sjá hversu lítil áhrif efnahagskreppan í kjölfar bankahrunsins hafði á þessa þróun og lítur út eins og smávægilegt frávik í stærra samhengi. Þá hefur kaupmáttur lágmarkslauna aukist verulega á tíma kórónukreppunnar.

Samtök atvinnulífsins