Kaupmáttur lægstu launa aukist um 80% frá 1995

Kaupmáttur lægstu launa hefur aukist um 80% frá árinu 1995 en kaupmáttur launa almennt hefur á sama tíma aukist um rúmlega 30%. Kjarasamningarnir sem gerðir voru í febrúar árið 2008  eru mestu láglaunasamningar sem gerðir hafa verið en með þeim tókst að verja kaupmátt lægstu launa og lægstu kauptaxta í gegnum kreppuna.

Þetta kom m.a. fram í viðtali við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær þar sem rætt var um stöðu atvinnumála og komandi kjarasamninga.  Hann segir markvisst hafa verið unnið að því á síðustu árum að hækka lægstu laun umfram hærri laun.

Vilhjálmur segir að Samtök atvinnulífsins vilji ná þeim árangri í næstu kjarasamningum að kaupmáttur fólks muni aukast og skapaðar verði þær aðstæður að fyrirtæki vilji og geti ráðið fólk í vinnu og fjárfest. Það sé sá árangur sem SA vilji stefna að í stað þess að fara leið verðbólgu og minnkandi kaupmáttar með hækkun launa upp á tugi prósenta sem skilji ekkert eftir sig nema skert kjör.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér að neðan, en þar ræðir Vilhjálmur einnig um gjaldeyrishöftin, AGS og Icesave.

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ HLUSTA