Kaupmáttur eykst um 9,4% milli ára

Niðurstöður launakönnunar Kjararannsóknarnefndar fyrir 1. ársfjórðung 2001 liggja nú fyrir. Samkvæmt þeim hækkuðu dagvinnulaun um 13,7% að meðaltali frá sama fjórðungi í fyrra. Þetta eru meiri launahækkanir en Kjararannsóknarnefnd hefur mælt á einu ári frá því í lok níunda áratugarins.  Hafa ber þó í huga að í þessum tölum eru yfirleitt tvær samningsbundnar launahækkanir á tímabilinu.  Þar sem verðlag hækkaði um 4% jókst kaupmáttur launa um 9,4% sem er meiri kaupmáttaraukning en mælst hefur á einu ári í tæpan einn og hálfan áratug, eða frá árinu 1987. Með þessum miklu launahækkunum var kaupmáttur í sögulegu hámarki í upphafi þessa árs.  Launahækkun starfsstétta var á bilinu 11,0% til 15,4% að meðaltali. Laun kvenna hækkuðu um 14,0% en karla um 13,4%. Laun á höfuðborgarsvæði hækkuðu um 15,1% en laun utan höfuðborgarsvæðis um 11,7%.


Sjá nánari upplýsingar í fréttatilkynningu Kjararannsóknarnefndar.