Karin Forseke á leið til Íslands

Karin Forseke

Sænska athafnakonan Karin Forseke er á leið til Íslands en hún tekur þátt í námstefnunni Virkjum fjármagn kvenna sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica föstudaginn 28. mars. Karin er fædd árið 1955 og er fyrsta kona heims til að stýra fjárfestingarbanka en hún var forstjóri sænska fjárfestingarbankans Carnegie á árunum 2003-2006. Hún var ein fárra kvenna í forstjórastóli fyrirtækja í kauphöllinni í Stokkhólmi. Karin mun fjalla um reynslu sína úr fjármálageiranum og mikilvægi þess að konur hasli sér völl innan hans.

Karin er stjórnarmaður í breska fjármálaeftirlitinu (FSA) og hefur áratugareynslu af fjármálamörkuðum á Norðurlöndunum, í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hún situr m.a. í ráðgjafaráði fjármálamarkaðarins í Svíþjóð (Financial Markets Advisory Council), og er stjórnarmaður í konunglegu óperunni í Stokkhólmi og Wallenius skipafélaginu.

Áður en Karin hóf störf hjá Carnegie fjárfestingarbankanum stýrði hún m.a. LIFFE (London International Financial Futures Exchange) og var einnig ábyrg fyrir viðskiptaþróun OMLX exchange í London.

Nánari upplýsingar um Virkjum fjármagn kvenna