Efnahagsmál - 

10. Janúar 2014

Jákvætt framlag fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Jákvætt framlag fyrirtækja

Fjöldi fyrirtækja hefur í vikunni lýst því yfir að þau hyggist styrkja markmið nýrra kjarasamninga um lága verðbólgu og aukinn kaupmátt, með því að lækka verð eða hætta við verðhækkanir sem höfðu verið boðaðar. Samtök atvinnulífsins fagna þessu jákvæða framlagi fyrirtækjanna sem er mikilvægt til að koma á auknum stöðugleika á Íslandi og bæta lífskjör landsmanna. Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtæki þessa dagana, ásamt sveitarfélögum og ríki til að leggja sitt af mörkum til að skapa stöðugt verðlag.

Fjöldi fyrirtækja hefur í vikunni lýst því yfir að þau hyggist styrkja markmið nýrra kjarasamninga um lága verðbólgu og aukinn kaupmátt, með því að lækka verð eða hætta við verðhækkanir sem höfðu verið boðaðar. Samtök atvinnulífsins fagna þessu jákvæða framlagi fyrirtækjanna sem er mikilvægt til að koma á auknum stöðugleika á Íslandi og bæta lífskjör landsmanna. Samtök atvinnulífsins hvetja fyrirtæki þessa dagana, ásamt sveitarfélögum og ríki til að leggja sitt af mörkum til að skapa stöðugt verðlag.

Meðal þeirra sem hafa lagt sitt af mörkum eru eftirfarandi fyrirtæki:

Í dag mun Bónus lækka verð á um 600 vörutegundum.  Þetta eru vörur sem Bónus flytur inn beint frá erlendum birgjum.  Bónus mun nýta það svigrúm sem styrking íslensku krónunnar undanfarið gefur til verðlækkunar og treystir á að íslenska krónan veikist ekki á næstunni. Verðlækkunin er allt að 5%, þó mismunandi eftir vörum og vöruflokkum, en að jafnaði á milli 2 og 3%.

Matfugl ehf. hefur ákveðið 5% lækkun heildsöluverðs á heilum kjúklingum og kjúklingabringum sem fyrirtækið framleiðir. Verðlækkunin tekur gildi á mánudaginn kemur, 13. janúar. "Kjarasamningarnir fyrir jólin auka vissulega launakostnað í fyrirtækinu en þegar á heildina er litið finnst okkur öllu máli skipta að styðja skynsamleg markmið samninganna um efnahagslegan stöðugleika og lága verðbólgu. Þess vegna ákváðum við að standa við að lækka verð á kjúklingaafurðum sem við seljum undir eigin vörumerkjum."

Hagkaup mun lækka verð á um 1.500 vörum á næstu dögum.  Þetta eru vörur sem Hagkaup flytur inn beint frá erlendum birgjum.  Hagkaup mun nýta það svigrúm sem styrking íslensku krónunnar undanfarið gefur til verðlækkunar og treystir á að íslenska krónan veikist ekki á næstunni, að því er fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu. Verðlækkunin er að meðaltali 2,5%, þó mismunandi milli vara.


Stjórnendur Emmessís ehf. hafa ákveðið að draga til baka boðaðar verðhækkanir á vörum fyrirtækisins. Með þessu vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum til að skapa sátt á vinnumarkaði og stuðla að stöðugleika í efnahagslífi þjóðarinnar þrátt fyrir umtalsverða verðhækkun aðfanga og aukinn framleiðslukostnað. Verð á öllum vörum Emmessís verður því áfram óbreytt.

"Það er mat stjórnenda að mikilvægt sé að nýgerðir kjarasamningar standi svo hægt sé að eyða óvissu og halda áfram að styðja við vöxt atvinnulífsins. Veigamikill þáttur í því er að halda verðlagi í skefjum, tryggja kaupmátt almennings og ná niður vaxtastigi í landinu. Það er bæði í þágu launafólks og atvinnurekenda, sem þurfa að búa við mun hærri fjármagnskostnað en þekkist í nágrannalöndum okkar."

Ölgerðin lækkar verð á ýmsum vörutegundum til að styðja við markmið kjarasamninga. Hér er viðtal við Andra Þór Guðmundsson, forstjóra Ölgerðarinnar  á Bylgjunni. Þar segir Andri Þór m.a. að á mánudag verði verð á tilteknum innfluttum vörum lækkað - mest um 7,8% á barnamat, en aðrar vörur um 2-3%. Einhverjar vörur munu hækka lítillega vegna þróunar erlendra gjaldmiðla. Andri er bjartsýnn á að hægt sé að ná stöðugleika á Íslandi. Hann segir engar ákvarðanir hafi verið teknar um hækkanir á framleiðsluvörum fyrirtækisins og Ölgerðin muni halda að sér höndum, bíða átekta og sjá hvernig mál þróist. Andri segir mjög mikilvægt að á þessum tímapunkti gái fyrirtæki landsins vel að sér og ef hækka þurfi verð þá verði þær hækkanir undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans þannig að kaupmáttur aukist. Ótrúlegt tækifæri blasi við og ná verði samstöðu um verðlagsstöðugleika. Andri hvetur önnur fyrirtæki til að stíga fram og lýsa því yfir að þau muni stilla hækkunum sínum í hóf eða sleppa þeim alfarið.

Þá hafa N1,Kaupfélag Skagfirðinga og Bílastæðasjóður dregið til baka áður boðaðar hækkanir sínar og nokkur fyrirtæki hafa tilkynnt um að þau muni ekki hækka verð, þ.m.t. Góa og Flúðasveppir

Lífland hefur ákveðið að lækka verð á kjarnfóðri. Lækkunin nær til allra fóðurtegunda og nemur hún 2%.

Áfengisgjald hækkar ekki eins og var fyrirhugað.

Vífilfell hefur ákveðið að draga tilbaka áður tilkynnta 5% hækkun heildsöluverðs á próteindrykknum Hámarki. Þetta var eina varan hjá Vífillfelli sem hækkaði um áramótin en alls eru vörur fyrirtækisins hátt í 600 talsins.

Samtök atvinnulífsins