Jákvætt að flytja til frídaga

Í dag snúa flestir til vinnu á ný eftir fimmtudagsfrí þar sem uppstigningardagur var í gær, en margir taka út orlofsdag og ná þannig fjögurra daga samfelldu fríi. Fyrir tveimur vikum braut sumardagurinn fyrsti vinnuvikuna upp með sama hætti. Samtök atvinnulífsins hafa lengi talað fyrir tilfærslu þessara daga en með því mætti auka hagræði í rekstri fyrirtækja og stofnana og bæta framleiðni og afköst. Margoft hefur komið fram að slíkar tillögur njóta mikils stuðnings almennings og atvinnulífsins.

Til dæmis leiddi könnun SA meðal félagsmanna fyrir nokkrum árum í ljós að 80% forsvarsmanna fyrirtækja töldu að tilfærsla frídaganna yfir á heppilegri tíma stuðlaði að hagræði í rekstri og því liggur fyrir afgerandi vilji atvinnulífsins til breytingar og hagræðingar á þessu sviði. Þá má nefna að fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis að þessir frídagar verði færðir að nærliggjandi helgum. Önnur útfærsla á tilfærslu þessara frídaga gæti værið lenging orlofs gegn niðurfellingu fimmtudagsfrídaganna.

Sumardagurinn fyrsti og uppstigningardagur eru frídagar samkvæmt lögum um 40 stunda vinnuviku og einnig samkvæmt kjarasamningum. Því þarf að breyta bæði lögum og gildandi kjarasamningum ef áform um tilfærslu þessara frídaga eiga að ná fram að ganga.

Reynslan sýnir að ógerlegt er að ná breytingum fram nema það náist víðtæk samstaða verkalýðshreyfingarinnar og samtaka vinnuveitenda. Án slíkrar samstöðu er verr af stað farið en heima setið. Heildarsamtök launafólks, bæði á almenna og opinbera vinnumarkaðarins, þurfa að stilla saman strengi og koma sér saman um samræmda tillögu um tiltekna breytingu.

Rifja má upp  að í kjarasamningalotunni árið 1988 náðist samkomulag milli samtaka vinnuveitenda og nokkurra stéttarfélaga (sem sömdu fyrst) um tilfærslu fimmtudagsfrídaganna til næsta mánudags.

Samningsákvæðið hljóðaði svo: "Samningur þessi miðar við að uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti verði vinnudagar en frídagar komi mánudaginn næsta á eftir. Samningsákvæði þetta öðlast endanlegt gildi þegar a.m.k. þrjú landssambönd innan Alþýðusambands Íslands hafa samþykkt slíka breytingu og nauðsynlegar lagabreytingar hafa náð fram að ganga." Málið náði ekki fram að ganga vegna þess að samningarnir voru felldir í atkvæðagreiðslum meðal félagsmanna, m.a. vegna þessa ákvæðis. Umrætt ákvæði var ekki í samningunum sem síðar voru samþykktir.

Eftir páskafrí, sem eru með lengra móti hér á landi, koma nokkrar slitróttar vinnuvikur sem rofna vegna umræddra fimmtudagsfría, auk 1. maí og 17. júní. Að þeim tíma loknum tekur síðan við langt sumarleyfistímabil. Tímabilið frá páskum og fram að hausti einkennist af því að hlé og gangsetning skiptast stöðugt á. Þessar sífelldu raskanir á starfsemi fyrirtækja og stofnana draga úr viðskiptum, afköstum og framleiðslu og þar með úr lífskjörum landsmanna allra.