Jákvæður tónn í kjarasamningaviðræðum

Viðræður á milli Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands hafa staðið yfir undanfarna daga. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við VB sjónvarp töluvert bera á milli um launaliðinn en jákvæður tónn sé í viðræðunum. Hann segir samtökin vera sammála um helstu meginmarkmiðin. Viðræðurnar hafi fram að þessu mest snúist um að móta rammann og samninginn í megindráttum.

Sjá má viðtalið hér að neðan:

Í viðtali við VB sjónvarp segir Þorsteinn skýrt sameiginlegt markmið aðila að stemma stigu við verðbólgu, að halda aftur af verðhækkunum og tryggja að launabreytingar fari ekki út í verðlagið. Það sé háð því að niðurstaða kjarasamninga verði á skynsamlegum nótum en með því megi auka kaupmátt fólks og treysta rekstrarumhverfi fyrirtækja. Til að ná efnahagslegum stöðugleika á Íslandi verði að taka upp agaðri vinnubrögð.