Jákvæðar fréttir: Promens stækkar á Dalvík og nýtir umhverfisvæna innlenda orku

Promens á Dalvík tók í notkun stækkaða verksmiðju í október. Með tilkomu 840 fermetra viðbyggingar og þriðja hverfisteypuofnsins eykst framleiðslugeta verksmiðjunnar um 60%. Fyrirtækið er því vel í stakk búið að mæta aukinni eftirspurn á komandi árum. Nýi hverfisteypuofninn, sem ræstur var í október, er einnig einstakur á heimsvísu því þetta er í fyrsta sinn sem ofn af þessari stærð er knúinn rafmagni í stað olíu- eða gasbrennara.

Í frétt Promens Dalvík ehf. sem fyrirtækið sendi í pósthólf SA fyrir jákvæðar fréttir segir að eitt af markmiðum Promens í aðdraganda ákvörðunar um stækkun verksmiðjunnar á Dalvík hafi verið að finna leið til að nýta innlenda græna orkugjafa í stað olíubrennslunnar.

"Það eru miklir kostir við að skipta yfir í rafmagnið, bæði fyrir starfsmenn og umhverfið og það er einnig hagstætt fyrir þjóðfélagið. Stefnan er að skipta um búnað í eldri ofnunum og að innan fárra ára verði framleiðsla Promens Dalvík alfarið keyrð á rafmagni.

Verksmiðja Promens á Dalvík er ein af fjórum verksmiðjum Promens hf. sem framleiðir Sæplast plastker til notkunar í matvælaiðnaði. Framleiðslutæknin sem hefur verið þróuð á Dalvík undanfarna áratugi er grunnurinn í öllum þessum fjórum verksmiðjum í dag. Stærstur hluti framleiðslunnar á Dalvík fer á erlenda markaði og frá verksmiðjunni hafa verið fluttar framleiðsluvörur til yfir 60 landa en aðal markaðssvæðið er Evrópa.

Framleiðsla fyrir sjávarútveg hefur allt frá upphafi verið þungamiðjan í vöruþróun og framleiðslu Sæplast-kerjanna. Það er ekki síst vegna þess að á Íslandi hefur verið rekinn öflugur og framsækinn sjávarútvegur undanfarna áratugi sem Promens hefur náð þeirri stöðu að vera leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á einangruðum plastkerjum fyrir sjávarútveg.

Framkvæmdir við stækkunina bygginguna hófust í árslok 2011. Arkitekt hússins er Bjarni Reykjalín á Akureyri, Verkfræðiskrifstofa Norðurlands annaðist byggingafræðilega útreikninga, Raftákn hf. á Akureyri hafði með höndum rafhönnun en aðalverktaki var Tréverk á Dalvík. Heildarfjárfesting í nýja verksmiðjuhúsinu og búnaði er um 270 milljónir króna en auk þess fjárfesti Promens Dalvík ehf. í leiguhúsnæði því sem starfssemin var í fyrir. Heildarfjárfestingin á árinu nam því um 500 milljónum króna og kom Landsbanki Íslands að fjármögnun verkefnisins."

Samtök atvinnulífsins þakka Promens Dalvík fyrir fréttina en SA hvetja fólk úr atvinnulífinu til að senda okkur fleiri jákvæðar fréttir. Við viljum miðla því sem vel er gert og getur orðið fólki hvatning. Við munum birta fleiri jákvæðar fréttir á mánudaginn.

Pósthólfið er opið ...