Jákvæðar fréttir: Landvinningar Creditinfo í Suður-Ameríku

Íslenska upplýsingafyrirtækið Creditinfo, sem starfar nú þegar víða utan Íslands, hefur fengið úthlutað starfsleyfi í Gvæjana í Suður-Ameríku. Creditinfo var valið úr hópi sex alþjóðlegra fyrirtækja sem starfa á þessu sviði á heimsvísu. Það voru IFC, sem er hluti af Alþjóðabankanum (International Finance Corporation, World Bank Group) og Seðlabankinn í Gvæjana sem stóðu að valinu. Í jákvæðri frétt frá fyrirtækinu kemur fram að  Creditinfo muni hefja starfsemi í Gvæjana fyrir lok ársins.

Í frétt Creditinfo sem var send í pósthólf SA fyrir jákvæðar fréttir segir m.a.:

"Við sóttumst eindregið eftir því að fá þetta leyfi og teljum okkur geta haft jákvæð áhrif á efnahagslíf Gvæjana. Við höfum einnig mikla reynslu af stofnun og rekstri fjárhagsupplýsingafyrirtækja á minna þróuðum mörkuðum sem mun nýtast okkur afar vel á þessum slóðum. Við höfum þróað nýja lausn sem er frábrugðin öllum öðrum að því leyti að hún er ódýr og innleiðing hennar er fljótleg sem auðveldar okkur að takast á við ný verkefni þar sem þörf er á heildarlausn fyrir fjármálamarkaðinn," segir Reynir Grétarsson, stofnandi og stjórnarformaður Creditinfo.

Fulltrúi Seðlabanka Gvæjana segir: "Mikil vinna hefur verið lögð í að velja rétta fyrirtækið í samvinnu við Alþjóðabankann. Við erum ánægð með niðurstöðuna og sannfærð um að Creditinfo sé rétti aðilinn til að reka þessa starfsemi í Gvæjana.

Samvinnulýðveldið Gvæjana er á norðurströnd Suður-Ameríku með landamæri að Venesúela í vestri, Súrínam í austri, Brasilíu í suðri, og strandlengju við Atlantshafið í norðri. Þar búa um 700 þúsund manns.

Creditinfo er leiðandi fyrirtæki í miðlun fjárhags- og viðskiptaupplýsinga og býður auk þess upp á fjölbreytta fjölmiðlaþjónustu. Fyrirtækið byggir á grunni tveggja eldri fyrirtækja, Lánstrausts sem var stofnað árið 1997 og Fjölmiðlavaktarinnar sem var upphaflega var stofnuð árið 1980. Árið 2002 hóf félagið starfsemi erlendis með stofnun fyrirtækis á Möltu. Á næstu árum voru opnuð fyrirtæki í fleiri löndum og utan um reksturinn var stofnað félagið Creditinfo Group. Nú starfa um 250 manns hjá Creditinfo í 11 löndum."

Samtök atvinnulífsins þakka Creditinfo fyrir fréttina en SA hvetja fólk úr atvinnulífinu til að senda okkur fleiri jákvæðar fréttir. Við viljum miðla því sem vel er gert og getur orðið fólki hvatning. Við munum birta fleiri jákvæðar fréttir á næstunni.

Pósthólfið er opið ...