Jákvæð úttekt á Fræðslumiðstöð atvinnulífsins

Ný úttekt ParX viðskiptaráðgjafar IBM á Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) sýnir að tekist hefur að ná markmiðum með starfsemi FA - að bæta möguleika þeirra á vinnumarkaði sem litla grunnmenntun hafa til að afla sér menntunar. Úttektin er afar jákvæð fyrir Fræðslumiðstöðina og starfið sem þar er unnið. Faglegur árangur af starfi FA þykir umtalsverður og fyrirkomulag hefur reynst vel. Samstarf FA við símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni og Mími símenntun hefur gengið vel og námsframboð fyrir markhópinn er gott. Þróun aðferða við mat á raunfærni, óformlegu námi og námsárangri hefur einnig gengið vel. Þessi fyrsta úttekt á FA fyrir menntamála ráðuneytið er unnin í samræmi við leiðbeiningar þess um úttektir á fræðslustofnunum.

Samtök atvinnulífsins  og Alþýðusamband Íslands stofnuðu Fræðslumiðstöðina í desember 2002. Hún er samstarfsvettvangur aðila vinnumarkaðarins  til að bæta menntun og möguleika  einstaklinga á vinnumarkaði með litla grunnmenntun, innflytjenda og sambærilegra hópa. FA hefur á undanförnum árum starfað á grundvelli þriggja þjónustusamninga við menntamálaráðuneytið.

Úttekt PareX er aðstandendum Fræðslumiðstöðvarinnar  gleðiefni og hvatning til að láta enn meira til sín taka í menntun þeirra sem minnsta hafa á íslenskum vinnumarkaði. Hún er mikilvægt innlegg í umræðu um þau viðamiklu verkefni á sviði fullorðinsfræðslu sem FA hafa verið falin og í innri stefnumótun Fræðslumiðstöðvarinnar. Þar sem búist er við að tenging fullorðinsfræðslu og endurmenntunar við íslenskt atvinnulíf muni enn aukast, skiptir þessi faglega viðurkenning á starfi FA miklu. Með starfi FA að mati á raunfærni þeirra sem ekki hafa lokið námi á framhaldsskólastigi hefur verið brotið blað og eru miklar vonir bundnar við þau tilraunaverkefni sem nú er unnið að. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins mun áfram gegna frumkvöðulshlutverki og er í stakk búin til að taka við auknum verkefnum ef yfirvöld menntamála  leggja aukna áherslu og fé í fullorðinsfræðslu á vinnumarkaði.

Skýrslu PareX um FA er að finna á vef Menntamálaráðuneytisins.