Jákvæð frétt: Veðjuðu á samfélagsmiðlana

Auglýsingastofan Pipar/TBWA hefur vaxið og dafnað vel á undanförnum árum en strax eftir efnahagshrunið 2008 ákváðu stjórnendur fyrirtækisins að breyta um kúrs. Stofan var þá í 7.-8. sæti yfir stærstu auglýsingastofur landsins. Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri Pipar/TBWA, segir að ákveðið hafi verið að breyta áherslum í takt við breytta tíma í þjóðfélaginu og endurskoða stefnumótun fyrirtækisins. Í jákvæðri frétt frá Pipar/TBWA segir að þeir hafi veðjað á samfélagsmiðlana og aðrar leiðir til að koma skilaboðum á framfæri á hagkvæman hátt. Það yrði stefið í markaðssetningu þeirra næstu árin.

En hvernig gekk?

Valgeir segir að strax í janúar 2009 hafi þeir bætt við fólki til að fylgja nýju stefnumótuninni eftir og fleiri hafi bæst í hópinn mánuðina á eftir.

"Við tókum svo stórt skref vorið 2010 og réðum fjóra starfsmenn í einu og stofnuðum sérstaka deild utan um samfélagsmiðla innan fyrirtækisins. Á síðasta ári bættum við um betur með stofnun dótturfyrirtækisins Silent sem sérhæfir sig í óhefðbundinni markaðssetningu og nýtir samfélagsmiðla mjög mikið. Þess má geta að þegar deildin var stofnum sóttu 1.017 manns um vinnu í deildinni þegar auglýst var eftir fólki í upphafi. Við höfðum því úr úrvals fólki að velja. Við virðumst hafa verið eina auglýsingastofan sem fór þessa leið í umbreytingu á þessum tíma og því höfum við skapað okkur þá sérstöðu að vera fremst á því sviði að nýta samfélagsmiðla til markaðssetningar.

Nú er svo komið að á þessum tíma hefur starfsmannafjöldinn vaxið úr 16 manns í 40 manns. Velta hefur vaxið úr 148 milljónum árið 2008 í 646 milljónir árið 2012. Stofan er nú ein af stærstu stofum landsins og hefur skilað hagnaði öll árin eftir hrun."

SA óska Pipar/TBWA til hamingju með vöxtinn og óska starfsfólkinu velfarnaðar á næstu misserum.

Sendu okkur jákvæða frétt. Samtök atvinnulífsins vilja miðla því sem vel er gert í atvinnulífinu og getur orðið fólki hvatning. Við munum birta fleiri jákvæðar fréttir á næstunni.

Pósthólfið er opið.