Jákvæð frétt: Sprakk út eftir 10 mánaða vöruþróun

Iðnmark í Hafnarfirði hefur sett nýja vöru á markað eftir 10 mánaða vöruþróun. Iðnmark hefur í 25 ár framleitt ostapopp sem margir landsmenn þekkja en fyrirtækið hefur nú bætt við nýrri tegund af ostapoppi á markaðinn með 30% meiri osti.  Xtreme Ceddar Ostapopp er því ný vara í flóru íslensks iðnaðar en Iðnmark hefur alla tíð lagt mikla áherslu á vöruþróun.

Sigurjón Dagbjartsson, framkvæmdastjóri Iðnmarks, segir að við framleiðsluna sé notaður svokallaður hvítur maís, sem sé trefjaríkur og innihaldi flókin kolvetni og er án sykurs.

Að poppa er tiltölulega einfalt í heimahúsum en hjá Iðnmark er vandað vel til verka. Sigurjón segir Xtreme poppið poppað í heitum loftstraumi sem auki gæði þess, poppkornið sé síðan úðað með osti og kókosolíu sem hituð hefur verið í 30 gráður.

Iðnmark var stofnað árið 1988 af Dagbjarti Björnssyni og konu hans Eyrúnu Sigurjónsdóttur. Iðnmark er lítið fjölskyldufyrirtæki sem sem hefur sérhæft sig á íslenska popp og snakkmarkaðnum. Hráefnið í framleiðsluna er keypt frá Evrópu en rétta bragðið er töfrað fram í Hafnarfirði við framleiðsluna. Allar umbúðir utan um framleiðslu Iðnmark eru framleiddar af Plastprent og Kassagerð Reykjavíkur.

Dagbjartur Björnsson "yfirpoppari" og stofnandi Iðnmark.

SA óska Iðnmark til hamingju með nýju vöruna!

Sendu okkur jákvæða frétt. Samtök atvinnulífsins vilja miðla því sem vel er gert og getur orðið fólki hvatning. Við munum birta fleiri jákvæðar fréttir á næstunni.

Pósthólfið er opið ...