Jákvæð frétt: Íslenskt hugvit nýtist fyrirtækjum um allan heim

Hjá ráðgjafar- og hugbúnaðarfyrirtækinu Stika hefur verið unnið markvisst að því undanfarin ár að flytja út íslenskt hugvit á sviði áhættu- og gæðastjórnunar. "Við hjá Stika verðum vör við að fleiri fyrirtæki og stofnanir hér heima og erlendis horfa til tækifæra sem virk áhættu- og gæðastjórnun hefur í för með sér," segir Erlendur Steinn Guðnason framkvæmdastjóri Stika. Stiki hefur nú náð þeim áfanga að selja hugbúnað sinn til um 160 notenda í 17 löndum.

"Það er ánægjulegt að íslenskt hugvit nýtist fyrirtækjum um allan heim til að stuðla að heilbrigðari rekstri og skapi gjaldeyri fyrir þjóðarbúið," segir Erlendur en fyrirtækið var stofnað árið 1992 og sérhæfir sig í hugbúnaðarþróun og ráðgjöf með áherslu á gagnaöryggi og öryggi upplýsingakerfa.

Erlendur bendir á að jafnvel í Mongólíu séu fyrirtæki sem nýti sér hugbúnað Stika, RM Studio, til að ná fram hagræðingu og minnka áhættu í sínum rekstri.

Erlendur segir Stika hafa unnið markvisst að þeirri sýn að áhættu- og gæðastjórnun sé ein lykilforsenda í rekstri fyrirtækja og stofnana. "Í þeim tilgangi öðlaðist Stiki öryggisvottun skv. ISO 27001 staðli og gæðavottun skv. ISO 9001 staðli árið 2002."

Nánari upplýsingar um Stika er að finna á vef fyrirtækisins, www.stiki.eu

SA þakka Stika fyrir að senda okkur þessa jákvæðu frétt og óska fyrirtækinu góðs gengis í útfluningi á íslensku hugviti.

Sendu okkur jákvæða frétt. Samtök atvinnulífsins vilja miðla því sem vel er gert í atvinnulífinu og getur orðið fólki hvatning.

Pósthólfið er opið.