Jafnrétti mest á Íslandi samkvæmt IMD

Stöðug og vaxandi umræða er um jafnréttismál hér á landi og er það fagnaðarefni ekki síst með hliðsjón af þróun samfélagsins í átt til fjölmenningar. Að mati SA er það mikilvægt hagsmunamál atvinnulífsins að konur og karlar eigi í reynd jafna möguleika til starfa, starfsþróunar og launa og þarf að vinna markvisst að því að auka jöfnuð milli kvenna og karla í atvinnulífinu meðal annars með því að endurskoða hefðir, venjur, viðhorf og vinnuaðferðir innan fyrirtækja og stofnana. Samkvæmt jafnréttislögum skulu laun ákveðin á sama hátt fyrri konur og karla og skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Í því felst að launaákvarðanir endurspegli starf, ábyrgð, vinnuframlag, frammistöðu og hæfni viðkomandi starfsmanns óháð kynferði, þjóðerni eða litarhætti. Starfaskipting á vinnumarkaði er enn mjög kynbundin og er jafnara starfsval kvenna og karla mikilvægur þáttur í því að jafna stöðu kynjanna.

Mat á stöðu jafnréttismála hér á landi í alþjóðlegu samhengi er fróðlegt viðfangsefni. IMD viðskiptaháskólinn,  sem er leiðandi í rannsóknum á alþjóðlegri samkeppnishæfni og gerir árlega samræmdar rannsóknir á stöðu mála hjá um 55 þjóðum í öllum heimsálfum, birti nýlega í ritinu World Competitiveness Yearbook (WCY) mælikvarða á stöðu jafnréttismála. Byggist sá mælikvarði á samræmdri spurningakönnun meðal stjórnenda fyrirtækja og stofnana í viðkomandi löndum. Mælikvarðinn um jafnrétti er í víðtækum skilningi þar sem niðurstöður eru byggðar á svörum við spurningunni um það hvort misrétti á grundvelli kyns, kynþáttar, aldurs o.fl. sé Þrándur í Götu efnahagsþróunar. Niðurstaðan er sýnd í vísitölu á skalanum 0-10 þar sem jafnrétti eykst eftir því sem vísitalan er hærri. Á meðfylgjandi mynd er sýnd niðurstaða þessa mælivarða í rannsókn stofnunarinnar fyrir árið 2007. Má þar sjá að Ísland lendir í fyrsta sæti með vísitöluna 8,72 , sem er talsvert hagstæðari útkoma en hjá þeim löndum  sem fylgja næst á eftir.

Misrétti á grundvelli kynþáttar, kyns, aldurs o.fl.
Vísitala WCY fyrir árið 2007
(Hærra gildi þýðir aukið jafnrétti)

Smellið á myndina til að sjá niðurstöður IMD í heild

SMELLIÐ Á MYNDINA TIL AÐ SJÁ NIÐURSTÖÐUR IMD Í HEILD